144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil inna forseta eftir fundi formanna um þinglok. Það var rætt á fundi þingflokksformanna í gær að seinni partinn í dag stæði til að boða slíkan fund. Nú hefur þingstörfum undið ágætlega fram, við höfum rætt hér ríkisfjármálaáætlun og bent á að augljósar misfellur á þeim málatilbúnaði öllum, en höfum ekki fengið neitt að heyra um fyrirhugaðan fund formanna um þinglok. Ég vil árétta það sem ég sagði undir liðnum um störf þingsins í morgun að það er orðið afar mikilvægt að nýta sérstaklega þetta góða andrúmsloft sem hefur fengist með losun hafta og þeirri áætlun sem er í anda hins ábyrga meiri hluta í þinginu, að sá hinn sami ábyrgi meiri hluti held ég að megi núna setjast niður og smíða einhverja þá niðurstöðu í þingstörfum að þessu sinni sem sé þinginu öllu til sóma.