144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þau svör að hæstv. forseti hafi komið þeim boðum áleiðis að fá upplýsingar um það hvenær standi til að halda nefndan fund með formönnum flokkanna. Mér finnst það reyndar svolítið sérkennilegt að við spurðum nokkur hæstv. forseta um þetta fyrir nokkru, fyrir hálftíma eða þar um bil, og fyrst svörin lágu ekki fyrir á þeim tímapunkti þá kviknar hjá manni sá grunur að þessi fundur hafi einfaldlega ekki verið undirbúinn, þ.e. fyrst svarið lá ekki klárt fyrir í fyrra skiptið þegar við spurðum og ekki hægt að skýra frá því. Ég ætla svo sannarlega að vona að ég hafi rangt fyrir mér í því efni því að ég held að til að halda þeim góða anda sem þó hefur ríkt undanfarna daga sé mjög mikilvægt að mál fari að skýrast.