144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég var með fyrirspurn til hæstv. forseta. Ég leitaði til starfsfólksins og fékk úr því skorið að að sjálfsögðu, eins og allir þekkja, getur nefndin kallað málið til sín en formið á því er þannig að forseti getur vísað því til nefndar; hann getur upp á sitt eindæmi ákveðið að gera það. Jafnframt getur nefnd kallað eftir því að fá mál til sín og þá þarf meiri hluti nefndarinnar að samþykkja það. Það eina sem minni hlutinn getur gert í þessu máli er að senda beiðni til formanns fjárlaganefndar um að nefndin komi saman og fjalli um þær tillögur minni hlutans að nefndin skuli taka málið til umfjöllunar. Þá er það borið undir atkvæði og meiri hlutinn ræður. Minni hlutinn í nefndinni, hv. þingmenn Oddný Harðardóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir, hefur sent boð á nefndina og ég styð það sem áheyrnarfulltrúi að nefndin taki málið aftur til sín. Ég held að það væri mjög ábyrgt af forseta að fá heimild til þess frá aðalforseta þingsins að vísa málinu til nefndar.