144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er satt best að segja farinn að verða dálítið undrandi á þeirri þögn sem ríkir í búðum stjórnarliða hér á þingi. Um miðjan dag í gær var haldinn þingflokksformannafundur á skrifstofu forseta og þar var sagt frá því að boðaður yrði fundur formanna flokkanna, sennilega á milli kl. eitt og tvö í dag.

Maður hefði því búist við fundarboði einhvern tíma í morgun. En einhver misskilningur hlýtur að vera á ferð eða þá að fundarboðið sé á næsta leiti, eða að það hafi verið sent formönnum einhverra annarra flokka sem ekki eiga sæti hér á Alþingi vegna þess að ekki bólar á fundarboði.

Ég trúi ekki að menn ætli ekki að nýta það svigrúm sem hefur skapast hér í þingstörfunum til að setjast yfir málin og ýta ágreiningsmálunum til hliðar og semja um þinglok. Það hlýtur að vera yfirvofandi samhliða þeim mikilvægu málum sem við ætlum að fara að ráðast í hér á næstu dögum.