144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lýsa vonbrigðum mínum með að ekki sé búið að boða þennan fund með formönnum flokkanna sem átti að vera í dag. Ég trúi því ekki að forustumenn ríkisstjórnarinnar ætli að halda áfram með þann bolabíts- eða brussugang — ég veit ekki hvað ég á að kalla það — sem þeir hafa sýnt hér í umgengni við þingið undanfarið.

Í gær tókst þeim að leggja fram eitt stærsta mál sem beðið hefur verið eftir. Þingið fagnaði allt og við segjum: Af hverju í ósköpunum ekki að halda áfram á þeim nótum? Af hverju er það lag ekki nýtt, sá andi, til að halda áfram saman og klára þetta þing í stað þess að byrja að þjösnast aftur? Það eina sem þessum mönnum virðist eðlislægt er þjösnagangur.