144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Stjórnarandstaðan er seinþreytt til vandræða en við erum orðin ansi langeyg eftir því að menn fari að forgangsraða málum ríkisstjórnarinnar og setja þau mál á oddinn sem menn vita að þarf að afgreiða. Á dagskrá á morgun er stórt og mikið mál sem mikil samstaða er um svo að það er lágmarkskrafa að við fáum í dag niðurstöðu um það hvaða mál fara í gegn. Það er ekki sjálfgefið og verður aldrei að 74 mál, eða guð má vita hver talan er orðin, fari hér í gegn. Hver heilvita maður, sem hefur einhvern sans fyrir þessum hlutum, ætti að vita það. Við erum tilbúin til að setjast niður og forgangsraða eins og fólk þarf að gera þegar svo er komið að það er með allt niður um sig eða næstum því. Nú er sá tími kominn. Við munum ekki taka því þegjandi ef það verður ekki gert.