144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir það að þessi ríkisfjármálaáætlun verði dregin til baka eða skoðuð betur miðað við þann mikla forsendubrest sem orðinn er á henni. Þetta er gott plagg og á að vera verkfæri sem við getum unnið með. Ríkisfjármálaáætlun er rammi tekna og útgjalda næstu fjögur ár hjá hverri ríkisstjórn og við eigum að bera virðingu fyrir því. Þegar svona augljósir forsendubrestir hafa komið fram á fjárlaganefnd að fá hana aftur til umfjöllunar og leggja fram framhaldsnefndarálit sem lýtur að þeim breytingum á forsendum sem orðið hafa.

Ég vil ákalla þá skynsemdarmenn sem eru í meiri hlutanum hér á þingi, t.d. þingmann Framsóknarflokksins sem situr hér og brosir til mín; að hann beini því til sinna manna að reyna að leysa þessi mál. Ég vil líka vekja athygli á því að í dag er ekki 8. júní heldur 9. júní svo að tíminn hleypur frá okkur.