144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir að það er bagalegt að samþykkja eitthvað sem við vitum að gengur ekki upp. Ég spurði fjármálaráðherra einmitt þegar þessi 2% lágu fyrir hvort það væri ábyrgt að leggja einungis upp með svona litla hækkun varðandi launin þar sem vitað var að það væri ekki nægjanlegt og það þyrfti einhverjar aðrar aðgerðir.

Vissulega má færa fyrir því rök að það er heldur ekki gott að setja himinháa tölu þannig að við séum að semja af okkur en það var alveg ljóst að þetta er ekki neitt sem við getum gert ráð fyrir að haldi. Þá erum við strax að búa til áætlun sem heldur ekki. Hvers virði eru slíkar áætlanir?

Við höfum sagt að hluti af því að rekstur ríkisins er ekki betri en hann er sé vegna þess að við Íslendingar erum ekki mjög flink í áætlanagerð. Þetta er ekki til þess fallið af hálfu forustu fjárlaganefndar að leggja til að þetta verði samþykkt óbreytt vitandi vits að plaggið heldur ekki.