144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:14]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er rétt að málið kom fram 1. apríl eins og vera ber, eins og hann sagði. Það vill meira að segja svo til að þó að það hafi ekki verið tekið inn í fjárlaganefnd fyrr en 13 dögum síðar, eða 12 dögum síðar, þann 13. apríl, var ekki búið að mæla fyrir því. Það er kannski óvanalegt að svo sé gert nema maður sé með mjög umfangsmikið mál og telji sig þurfa að vinna í haginn, þá er það gert að fengnu samþykki nefndarmanna. Þetta var hins vegar sett á dagskrá án þess að við, a.m.k. í minni hlutanum, værum um það spurð hvort við teldum það í lagi.

Þeir tveir aðilar sem hv. þingmaður nefndi sem tveim dögum seinna komu svo á fund, ríkisendurskoðandi og Hagstofan, fjölluðu um málið út frá sínum hliðum, það sem þeir gátu. Við óskuðum eftir því að nefndir þingsins fengju þetta mál til umfjöllunar af því að þetta er svolítið upptakturinn að því sem koma skal, rammi utan um málaflokkana og stefnan varðandi auðvitað öll mál sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Það sem er kannski athugunarvert er að þetta mál fékk afar litla umræðu og mér er til efs að fólk hafi eiginlega áttað sig á því um hvers lags plagg er að ræða miðað við hvað umfjöllunin tók skamman tíma. Mig minnir að málið hafi verið tekið út 6. maí, ég fullyrði það ekki alveg en mig minnir það. Það fékk enga viðbótarumfjöllun og ekki komu fleiri gestir eða neitt slíkt. Ég ítreka bara aftur að þetta er akkúrat mál sem að minnsta kosti fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd eiga að vinna saman, halda einn fund þar sem gestir koma og farið er yfir grunnþættina í því. Báðar þessar nefndir koma að þeim veigamiklu þáttum sem ríkisfjármálin snúast um þannig að þetta mál fékk ekki tilhlýðilega umræðu (Forseti hringir.) og umfjöllun í nefndum þingsins.