144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Það er rétt, málið sem er lagt fram 1. apríl kemur ekki til fyrri umr. í þingsal fyrr en 22. apríl. Slíkur er losarahátturinn.

Í þessari þingsályktunartillögu segir:

„Alþingi ályktar, sbr. 6. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármál …“

Og í þingsköpum segir einmitt, með leyfi forseta:

„Nefndin getur leitað umsagnar annarra nefnda um einstök atriði tillögunnar eftir því sem hún ákveður hverju sinni og setur þá fresti til afgreiðslu umsagna annarra nefnda.“

Það er sérstaklega talað um það, og það er óalgengt, að það skuli leita til annarra nefnda eftir föngum. Ég þakka þingmanninum fyrir að upplýsa mig enn þá meira. Losarahátturinn er mikill og (Forseti hringir.) framganga þessa máls í þinginu er mjög einkennileg. Nú langar mig að heyra í fjármálaráðherra til að fræðast um hvernig þetta var undirbúið í ráðuneytinu vegna þess að það er mjög mikið af villum og rugli í sjálfu plagginu.