144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Ég tek undir að það kemur líka fram varðandi þessa þingsályktunartillögu, þ.e. í þingsköpunum þar sem sagt er að þetta beri að leggja fram, ég skil það að minnsta kosti svo að þetta sé ekki það eina sem eigi að leggja fram heldur eigi að leggja fram drög að ramma fyrir sviðin eða málaflokkana eða hvernig sem við viljum tala um það. Það er í sjálfu sér töluvert lítið hald í því að vera einungis með stóru myndina og hafa ekkert annað, ekki einu sinni grunnskiptingu niður á málaflokka eins og kveðið er á um í opinberu fjármálunum. Þetta er upptakturinn í því. Þess vegna finnst mér hún ekki alveg standa undir væntingum hvað það varðar þegar hún var lögð fram burt séð frá að öðru leyti tölulegu innihaldi og öðru slíku.

Ég skildi ekki þennan asa, og ekki við í minni hluta fjárlaganefndar. Eins og ég segi óskuðum við eftir því að fá umsagnir nefnda um þetta mál en meiri hlutinn (Forseti hringir.) taldi ekki þörf á því og við sjáum hvað við erum með í höndunum í dag.