144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað alltaf að koma betur og betur í ljós í raunveruleikanum hversu litla áherslu stjórnarmeirihlutinn leggur á þessa tillögu sem er þó lögbundin og að mínu mati mjög gott skref ef rétt er að staðið, þ.e. það að koma inn í þingið með ríkisfjármálaáætlun, sem er í raunveruleikanum stefnumótun í málaflokknum, og síðan að fjárlög verði byggð á þeirri áætlun. Tíminn er mjög knappur vegna þess að ef áætlunin kemur inn 1. apríl, eins og hér er reiknað með, og menn þurfa að vera tilbúnir með fjárlagafrumvarp í byrjun september þarf það nánast að liggja fyrir í lok júnímánaðar vegna þess að öðruvísi næst ekki að lesa frumvarpið yfir, prenta það og ganga frá öllum þeim tölum sem í því eiga að vera.

Ég ætlaði að vera á svipuðum nótum og hv. þm. Jón Þór Ólafsson varðandi innihaldið í þessu og þeirri gagnrýni sem minni hluti fjárlaganefndar kemur með á ríkisfjármálaáætlunina. Í sjálfu sér er áætlunin bara ein blaðsíða eins og bent hefur verið á hér, það er bara forsíðan þar sem eru heildarútgjöld, heildartekjur og heildarjöfnuður og eitthvað svona, en engu að síður hafði maður þær væntingar að þarna yrði rætt um útgjaldarammann og að undir honum væri stefna ríkisstjórnarinnar. Þá gæfist manni kostur á að ræða áherslur, en þeir sem hafa svarað hafa sagt: Þetta er bara áætlun, það skiptir ekki máli hvað stendur í plagginu. Mig langar að heyra hv. þingmanni svara því. Mér finnst það frekar mikil lítilsvirðing við annars góða hugmynd. Þetta varðar stefnu ríkisstjórnarinnar sem og það hvort við fáum tækifærið sem okkur vantaði til að ræða ríkisfjármálaáætlun og ræða þar með stefnu ríkisstjórnarinnar í málaflokkum eins og menntamálum, heilbrigðismálum, eins og við vorum að segja, lífeyrismálum og öðru slíku.

Þetta er ekki bara spurningin um að búa til ramma sem að öðru leyti á ekkert að fara eftir.