144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er kannski það sem við lögðum áherslu á og höfum lagt áherslu á þegar við höfum tjáð okkur hér líka, og margur hefur verið að ræða þetta nýja mál um opinber fjármál eins og við þekkjum, að það sé kannski sú breyting sem við viljum sjá og þessi ríkisfjármálaáætlun undanfari þess. Við getum þó byrjað að vinna eftir hverju því sem við teljum best.

Akkúrat vegna þess að fjárlögin þurfi helst að liggja fyrir í lok júní, og nú er á fullu verið að vinna við fjárlagagerðina, er mjög bagalegt að ramminn utan um málasviðin skuli ekki liggja fyrir. Ég sagði áðan, og hef sagt áður, að ég veit að þetta er áætlun en ef við getum gert áætlunina sem best úr garði þannig að hún sé að sem mestu leyti raunhæf hlýtur það að hjálpa okkur til að gera stjórnsýsluna betri en hún er í dag.

Við í minni hlutanum óskuðum áðan eftir fundi með ráðherra í fyrramálið, óskuðum eftir því við varaformann fjárlaganefndar að hann sæi til þess að við gætum hitt fjármálaráðherra í fyrramálið og rætt þetta. Hann hefur orðið við því og ég má til með að lýsa yfir ánægju minni með það. Ég lít svo á að hann sé að einhverju leyti því sammála að það sé gott að fara aðeins yfir og í það minnsta fá að vita um þær tölur sem fram hafa komið í gegnum þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur lagt hér fram, sjá hvaða áhrif það hefur og hvort það gefi tilefni til að bæði meiri hluti og minni hluti geti þá jafnvel komið með eitthvert framhaldsnefndarálit.

Að öðru leyti eigum við bara að bera virðingu fyrir svona plaggi sem á að ná yfir stefnumörkun starfandi ríkisstjórnar til þriggja, fjögurra ára. Það er alltaf verið að tala um að fólk eigi að geta séð fram í tímann, gert einhverjar almennilegar áætlanir sem haldi og við krefjumst þess af stofnunum okkar. (Forseti hringir.) Það gerist ekki ef þetta nær engan veginn utan um það, þá getur það ekki veitt því stuðning.