144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram með það sem hv. þingmaður endaði á, þ.e. hvað svona áætlun þýðir. Ég skil það nefnilega svo að þó að lögð sé fram áætlun og menn telji hana ekki fullmótað plagg lýsi áætlunin stefnu. Það er hún sem við þurfum kannski ekki síður að ræða en bara nákvæmlega áætlunina. Það er líka mjög óraunhæft þegar menn segja: Ja, við ætlum ekki að gera neitt, við ætlum bara að hækka hérna. Við ætlum að skera niður um 1% eins og stungið er upp á í þessu plaggi, síðan er aukinn útgjaldaramminn á móti sem nemur svipaðri upphæð.

Hvar ætla menn að skera niður og hvernig? Við hvaða málaflokka á þetta að koma o.s.frv.?

Það sem mig langaði að spyrja um í seinna andsvarinu varðar einmitt umfjöllunina um Íbúðalánasjóð. Mér finnst svolítið djarft í þessari áætlun að reikna með því að það muni ekki kosta neitt að loka honum — eða á að loka honum? Það er ekki búið að taka neina afstöðu til þess. Ráðherrar hafa þar gefið misvísandi upplýsingar. Mér heyrist Framsóknarflokkurinn telja að sjóðurinn eigi að lifa, aðrir eru á því að það eigi að loka honum og hann eigi bara að vera innheimtustofnun. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af því sem til dæmis er í ríkisfjármálaáætluninni.