144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að hér hefur verið orðið við því að boða fund í fjárlaganefnd og taka málið til skoðunar, þ.e. forsendur þess, og meta þá væntanlega í samráði nefndarinnar hvort ástæða sé til að gefa út framhaldsnefndarálit eða láta málið einfaldlega bíða til haustsins. Ég hef heyrt báðar hugmyndir hér í rökræðum.

Ég hvet hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, sem er varaformaður nefndarinnar, til að leggjast á árar með okkur í samtali okkar við forseta þar sem langeðlilegast er að hlé verði gert á umræðunni um málið. Þar sem fyrir liggur að málið verður tekið til umfjöllunar í nefndinni sé ég ekki að það sé eðlilegt að við séum í þingsal að fjalla um málið eins og það sé hér bara til síðari umr. sem við séum að ljúka og klára svo málið með atkvæðagreiðslu.

Ég fer þess því á leit í fullri vinsemd við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson að hann hjálpi okkur í okkar vinalega samtali við forseta um að fá málið tekið út af dagskrá í bili og við getum þá tekið til við næstu mál á dagskrá þingsins.