144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú á að hafa fund í nefndinni á morgun eins og hefur verið nefnt hérna og ég er næstur í ræðustól til að fjalla um þetta mál sem á einmitt að taka til nefndarinnar á morgun. Við getum sparað þinginu ræðu mína sem verður um nákvæmlega það hvers vegna málið þurfi að fara til nefndar, hvernig ferlið hefur verið, ekki faglegt, vantað umsagnir, bæði frá nefndum þingsins og aðilum fyrir utan, sér í lagi þeirra sem eru skilgreindir í þingsályktunartillögunni sem óvissuþættir. Málið var ekki einu sinni sent til umsagnar og aðeins tveir kallaðir á gestafund.

Við getum sparað þinginu þann tíma sem ræða mín tekur ef hv. sitjandi formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, kemur upp undir liðnum um fundarstjórn forseta og kallar eftir því að málið komi til nefndar. Forseti getur bara orðið við því „med det samme“, vísað málinu til nefndar og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.