144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér er eiginlega alveg nóg boðið að heyra að ekki hafi verið boðað til neins formannafundar. Ég verð að viðurkenna að ég hef misskilið það áðan, ég taldi að það yrði fundur formanna og það væri búið að senda út boð um það, eins og var ákveðið á þingflokksformannafundi í gær með forseta Alþingis þar á meðal og að fundinum hefði bara seinkað. Nú er hins vegar ljóst að það hefur alls ekki verið ætlunin að halda neinn fund í dag og menn séu ekki enn farnir að gera sig líklega til þess.

Stendur ekki einhvers staðar að orð skuli standa? Á það ekki líka við um yfirmann þingsins, hæstv. forseta, Einar K. Guðfinnsson? Á ekki að vera hægt að treysta orðum hans þegar þingflokksformenn funda? Er það misskilningur að menn séu að gera samkomulag um að setja þetta stóra mál á dagskrá á morgun um losun fjármagnshafta og menn hafi náð einhverri niðurstöðu hérna deginum fyrr? Það er bara skömm að því (Forseti hringir.) að ekki sé hægt að treysta orðum manna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)