144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég ítreka vegna stöðu minnar að ég tel rétt og sanngjarnt að fara eins vel með tíma Alþingis hér í júní og mögulegt er. Sú staða sem nú er komin upp er að verða nánast dæmalaus, í fyrsta lagi er beðið eftir fundi þingflokksformanna sem ekki hefur verið boðaður en hefur verið yfirvofandi í allan dag, um stöðuna og þau mál sem eftir eru. Síðan er búið að fá hæstv. fjármálaráðherra til að fallast á að koma á fund fjárlaganefndar á morgun. Á hann að ræða þingsályktunartillögu sem er útrædd? Er það meiningin, forseti, að reyna að knýja fram með kvöldfundi og áframhaldandi umræðu — klukkan er nú að verða fimm — með slíkum þrótti að málið verði útrætt áður en fjármálaráðherra hefur svarað spurningum? Það er alveg fráleitt. Nú skulum við bara hætta þessu og ef menn vilja tala hér til sex eða sjö skulum við taka næsta mál á dagskrá. (Forseti hringir.) Það er um tekjuskattinn og ekki veitir af að tala svolítið um hann.