144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þegar það er vitað að fleiri upplýsingar eiga eftir að koma í ljós daginn eftir er eðlilegt að sýna þeim þingmönnum sem enn eiga eftir langan ræðutíma í viðkomandi máli þá kurteisi að gefa þeim tækifæri til að fá þær upplýsingar áður en þeir taka til máls. Það væri sjálfsögð krafa ef hér væru þingstörf nokkurs staðar nálægt því að vera með eðlilegu móti sem þau hafa ekki verið í langan tíma og maður óttast að það verði aldrei ef ekki verður tekið til í bæði þingsköpum, virðulegi forseti, og stjórnarskrá ef út í það er farið.

Núna er það ástand í gangi hérna að formenn flokkanna bíða eftir fundi og ekkert heyrist og enginn veit neitt og þá veltir maður fyrir sér, virðulegi forseti, hvers vegna við erum hér. Ég veit að virðulegur forseti getur ekki svarað þessari spurningu. Það er ekki þannig sem Alþingi virkar, ekki núna, ekki í gær og því miður líklega ekki á morgun heldur.