144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þó að ræða eigi þetta mál í nefnd á morgun og þetta sé síðari umræða — ég er að fara í mína fyrstu ræðu hvað það varðar, 20 mínútna ræðu þar sem ég gæti farið betur yfir málið sjálft — þarf ég að nýta þá ræðu í að fara yfir rökstuðninginn fyrir því hvers vegna þetta mál á ekki heima í umræðunni núna, hvers vegna þetta mál á heima aftur í nefnd. En gott og vel. Ég ætla að biðja hæstv. forseta, eins og ég bað um undir liðnum um fundarstjórn forseta rétt áðan, að spyrja hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson hvort hann sé tilbúinn að koma í salinn eða í hliðarherbergi og hlusta á ræðuna mína. Ég tel mig hafa réttmætar ástæður, og jafnvel lögmætar, fyrir því að þetta mál á ekki heima hér núna; það er þörf á því að vinna það betur í nefnd og jafnvel að nefndin vísi því aftur til ráðherra. Það er mikilvægt að hæstv. ráðherra heyri samantekt á þessum réttmætu áhyggjum þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni svo að ég bið hæstv. forseta því um að senda boð til hæstv. fjármálaráðherra. Ég bíð bara hér á meðan.

(Forseti (ÓP): Forseti vill upplýsa að hann hefur þegar komið skilaboðum til hæstv. ráðherra eins og beðið var um og mun reyna að gera honum viðvart aftur.)

Ég þakka forseta fyrir það.

Má ég spyrja hæstv. forseta hvort enn sé verið að reyna að hafa samband við fjármálaráðherra.

(Forseti (ÓP): Forseti getur upplýst hv. þingmann um það að verið er að koma skilaboðum til ráðherra eftir því sem forseti best veit. Forseti upplýsir að ráðherra er meðvitaður um beiðnina.)

Ráðherra er meðvitaður um beiðnina og hann er í húsi?

(Forseti (ÓP): Hann er í húsi.)

Ókei. Takk fyrir.

Til að fá fram rökstuðning fyrir því að réttmæt ástæða sé fyrir því að þetta mál eigi aftur heima í fjárlaganefnd þurfum við ekki annað en að byrja á því að skoða mikilvægi þess. Meginmarkmið ríkisfjármálastefnunnar er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika, framleiðslugetu hagkerfisins og afkomubata í ríkisrekstri. Það eru meginmarkmiðin. Til þess að ná þeim meginmarkmiðum er kveðið á um það í 6. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, að fara skuli í þessa stefnumörkun um ríkisfjármál. Í upphafi þingsályktunartillögunnar segir að Alþingi álykti, samanber nefnda grein í þingsköpum, að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármál fyrir árin 2016–2019; og aðeins fyrir neðan stendur að ákvörðun sé tekin á grundvelli þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlun er reist á.

Með því að leggja fram þetta mál á að ná því meginmarkmiði fram að Alþingi segi stjórnvöldum að þau skuli fylgja þessari stefnumörkun á grundvelli forsendna sem við vitum í dag að eru engan veginn réttar. Nefndin sem hafði málið til umfjöllunar — og ef við tökum tímalínuna hafði hún málið til umfjöllunar í einn og hálfan mánuð — gerir engar breytingar á því þó að á þessum eina og hálfa mánuði séu forsendur algjörlega breyttar; þó að grundvöllur þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlunin er reist á sé gjörbreyttur. Það eru mjög óábyrg vinnubrögð þegar kemur að fjármálastefnu ríkisins.

Það sem ég þarf að vita frá fjármálaráðherra er: Er hann bundinn af þessari þingsályktunartillögu? Hann leggur hana fyrir þingið — vinnur hana náttúrlega ekki sjálfur, það er ráðuneytið sem vinnur hana. En eflaust leggur hann þessa áætlun fyrir þingið í góðri trú. Hvað hélt hann að mundi gerast hér á þingi? Hélt hann að þingið mundi bara segja: Já, ókei, þetta er ógeðslega vel unnið hjá þér og við samþykkjum þetta, þetta er bara gott mál. Bjóst ráðherra við því? Það væri gott að fá svar frá ráðherra við því. Og hann er í húsi og það er búið að nefna við hann að ég er að bíða eftir honum og það er mjög mikilvægt að við fáum svör við því. Hann getur komið hér upp og farið í andsvar nema hann hafi drifið sig á foringjafundinn, sem hann ætti náttúrlega að vera á núna; ég mundi þá sætta mig við það og ég mundi bara ná honum í næstu ræðu. En það er mikilvægt að hann svari þessu. Taldi hann, þegar hann lagði þessa ályktun fyrir þingið, að meiri hlutinn mundi segja: Þetta er bara ógeðslega gott, ógeðslega flott hjá þér og við þurfum ekkert að breyta þessu?

Förum yfir tímalínuna í þinginu. Málið kemur til þingsins frá ráðherra 1. apríl. Þá líða 22 dagar af þessum sex vikum, þrjár vikur, helmingurinn af tímanum, þangað til málið er tekið fyrir til fyrri umr. og vísað til nefndar. — Já, takk, hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn. Ég þakka kærlega fyrir. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur heyrt það sem ég hef nefnt hingað til. En það sem ég er að gera í þessari ræðu er að reyna að færa rök fyrir því að réttmætar ástæður séu fyrir því að þetta mál eigi aftur heima hjá fjárlaganefnd. Ég þarf að endurtaka mig svolítið, ég bið hlustendur að afsaka það.

Meginmarkmið þessarar ríkisfjármálaáætlunar eru efnahagslegur stöðugleiki, framleiðslugeta hagkerfisins og afkomubati í ríkisrekstri. Þegar kemur að þessum þætti í því að stuðla að því þá skal Alþingi álykta, samanber þingsköp, að stjórnvöld fylgi stefnumörkun um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 á grundvelli þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlun er reist á. Þetta er klárlega mikilvægt atriði, þetta er það mikilvægt atriði að það er fest í þingsköp að Alþingi skuli álykta þetta og að ríkisstjórn eða stjórnvöld skuli fylgja því eftir; og talað er um grundvöll þeirra forsendna sem ríkisfjármálaáætlunin er reist á.

Nú vitum við, það hefur komið fram í þessari umræðu, að þessi grundvöllur, þessar forsendur, er brostinn. Það er mikilvægt að við fáum þá að vita frá fjármálaráðherra hvort hann búist við því, þegar hann leggur þetta fram 1. apríl, að meiri hluti fjárlaganefndar, sem á að fjalla um málið — og meðal annars er tekið sérstaklega fram í lögum um þingsköp að hægt sé að fá umsögn annarra nefnda um einstök atriði tillögunnar, og það er ekkert vanalegt að kveðið sé á um það. En málinu er hvorki vísað til annarrar nefndar né er send út umsagnabeiðni til aðila sem mikilvægt væri að fá umsagnir frá og nefni ég þá atriði sem varða óstöðugleika eða aðra áhættuþætti hvað það varðar að þessi stefna nái fram að ganga. Ég nefni Íbúðalánasjóð, aðila vinnumarkaðarins og marga aðra sem ég get nefnt hér á eftir. Ekki er einu sinni send út beiðni um að fá skriflegar umsagnir sendar inna.

Málið sjálft, þó að ráðherra leggi það fram 1. apríl, kemur ekki til fyrri umr. fyrr en 22. sama mánaðar, þrem vikum seinna, en það er helmingur af þeim tíma sem málið var til afgreiðslu í þinginu. Það er tekið inn í nefnd áður, það er tekið inn í nefnd 13. apríl. 15. apríl eru einu gestirnir, fyrir utan ráðuneytið sem var að kynna efnið, Ríkisendurskoðun og Hagstofa Íslands. Málið er síðan tekið út 13. síðasta mánaðar, sex vikum eftir að það kemur til þingsins. Það er mikilvægt að ráðherra svari þessari spurningu: Bjóst ráðherra við því að þegar málið væri tekið út með nefndaráliti af meiri hluta fjárlaganefndar að það yrði bara lagt til að það væri óbreytt? Eins og kemur fram í nefndarálitinu: Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt — já, þetta er 13. maí. Það er mikilvægt að fá svar við þessu frá ráðherra: Bjóst hann virkilega við því að það mál sem hann lagði fram úr ráðuneytinu, um þessa áætlun, um þessa mikilvægu þætti, yrði bara samþykkt óbreytt út úr nefndinni sex vikum eftir að ráðherra leggur það fram með forsendurnar gjörsamlega breyttar og grundvöllinn gjörsamlega breyttan? Það er akkúrat sá grundvöllur sem ráðherra á síðan að starfa eftir á næsta ári og þrjú árin þar á eftir. Þetta eru mjög „dúbíus“ vinnubrögð og ég vil fá svar frá ráðherra hvað þetta varðar.

Ef við förum yfir nefndarálit minni hlutans þá langar mig að spyrja ráðherra hvort hann hafi kynnt sér það, kynnt sér þau atriði. Nú hefur hann verið boðaður á fund nefndarinnar á morgun til að ræða þessa áætlun, þetta mál sem við erum að ræða núna í síðari umræðu — ef það klárast í dag þá er ekkert hægt að ræða það frekar, þá er það bara búið, umræðan búin. Ég spyr hvort ráðherra, ef hann hefur verið boðaður, mæti á fundinn í fjárlaganefnd í fyrramálið til að ræða þetta mál. Og ég spyr líka hvort honum finnist ekki rétt að taka það mál af dagskrá, við getum þá rætt það aftur á morgun og ræðum bara önnur mál sem eru á dagskránni í dag. Við þurfum ekkert að fresta fundi af því að það eru mörg mál sem liggja fyrir og mikilvægt að við höldum áfram að vinna, í stað þess að þurfa að vera að ræða þetta hér núna. Ég spyr því hvort ekki sé mikilvægt að við tökum þetta mál af dagskrá, það er önnur spurning, til að geta rætt það á morgun.

Ég var að reyna að skjóta inn annarri spurningu áðan, hvort hæstv. ráðherra hafi lesið nefndarálit minni hlutans og hvað hann hefur að segja um þau atriði. Hann svarar því þá kannski frekar fyrir nefndinni á morgun ef hann ætlar að mæta.

Varðandi grundvöllinn og ástæðuna, tilurð þessa þingmáls, þá eru það náttúrlega þingsköp. Þar segir, með leyfi forseta, í 6. mgr. 25. gr.:

„Sá ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins skal leggja fyrir Alþingi, eigi síðar en 1. apríl ár hvert, tillögu til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs (ramma), svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Með tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir.“

Í minnihlutaálitinu kemur fram að það vantar þennan ramma, það vantar fyrsta atriðið. Lög kveða á um að það eigi líka að leggja það fram. Það gefur strax til kynna að þetta hefur ekki verið fullunnið í ráðuneytinu áður en málið var lagt fram hér á þingi. Ég spyr hvort ráðherra hafi einhverjar ástæður fyrir því.

Ef við höldum áfram að ræða hvernig þetta hefur verið unnið í ráðuneytinu þá eru ýmis atriði þarna sem stinga í stúf. Í tvígang er talað um gjaldeyrishöft. Það eru ekki gjaldeyrishöft á Íslandi, eins og hæstv. ráðherra hefur sjálfur nefnt hér í ræðustól, og útlistað fyrir þingmönnum; þetta eru ekki gjaldeyrishöft, þetta eru fjármagnshöft. En á bls. 25 segir, með leyfi forseta, um einn af óvissu- og áhættuþáttunum:

„Vaxtakjör ríkissjóðs á innlendum og erlendum mörkuðum gætu tekið að hækka eftir að gjaldeyrishöftum hefur verið aflétt og þegar draga tekur úr þrengingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og efnahagsstarfsemi. Þá gæti frekari hækkun á gengi Bandaríkjadals eða gengissig krónunnar í kjölfar losunar á fjármagnshöftum haft talsverð áhrif á erlendar skuldir ríkissjóðs.“

Í sömu málsgrein er talað um gjaldeyrishöft og fjármagnshöft. En á síðu 18 eru gjaldeyrishöft nefnd og orðið gjaldeyrishöft er þannig nefnt í tvígang. Það gefur til kynna að þingsályktunartillagan hafi einfaldlega ekki verið lesin nógu vel yfir ef orðið „gjaldeyrishöft“ slæðist inn á tveim stöðum, og meira að segja í sömu setningu og orðið „fjármagnshöft“ er notað. Ég lærði bara af hæstv. ráðherra um muninn á fjármagnshöftum og gjaldeyrishöftum og þegar ég les í gegnum þetta þá stingur þetta strax í stúf. Ef ráðuneytið er að vinna þetta, sjálft ráðuneytið, og svona villur slæðast inn þá gefur það til kynna að þetta hafi verið gert í einhverjum flýti, að ekki hefur verið vandað til verka. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort það sé rétt skilið hjá mér að þar sem talað er um gjaldeyrishöft á síðu 18 og á síðu 25 sé verið að tala um fjármagnshöftin.

Í lokin langar mig að hrósa öðrum nefndarformanni, sem er hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrir að stýra nefndarfundum af slíkri fagmennsku að ekki eru miklar deilur um formið og hvernig mál eru unnin, þ.e. málin eru unnin faglega. Hún fer strax í að skipa framsögumenn og leggja fram áætlun um það hvernig mál verða unnin. Hún fer strax í það að óska eftir umsögnum o.s.frv. og málin eru unnin faglega þannig að menn þurfi ekki að rífast um form; en menn geta vissulega rifist um efnið. En þetta mál er ekki faglega unnið. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og ég vona að ég fái góð svör.