144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ekki var kastað til höndum við gerð þessarar þingsályktunar þó að menn hafi athugasemdir við orðalag á einstaka stað. Það er í sjálfu sér ekkert rangt að tala um gjaldeyrishöftin, það er nákvæmara að tala um fjármagnshöft. En hér er velt upp spurningum sem snúa að forsendum fyrir þingsályktunartillögunni. Þá vil ég vekja athygli á því í fyrsta lagi að það kemur skýrt fram í þessari ályktun að það eru ýmsir óvissuþættir. Við munum alltaf standa frammi fyrir því, þegar við leggjum ríkisfjármálaáætlun fram á fyrri hluta árs og erum að spá langt fram í tímann, að jafnvel bara á næsta fjárlagaári verði margir óvissuþættir. Það er eðlilegt að menn spyrji sig nú, þegar við höfum fengið niðurstöðu í kjarasamninga og lögð hafa verið fram frumvörp sem tengjast haftamálunum, hvort fleiri óvissuþáttum hafi verið eytt frá því þingsályktunartillagan kom fram.

Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að fastsetja áhrifin þannig að hægt sé að skrifa það inn í ríkisfjármálaáætlunina og nefni þar sem dæmi áhrif haftafrumvarpanna. Í raun má segja það sama um kjaramálin, enn eru ýmis kjaramál óleyst, sérstaklega þau sem snúa að ríkinu. Það er tímafrek vinna að leggja mat á áhrif samninganna á almenna markaðinum, ég tala nú ekki um ef við ættum að fara að áætla fyrir mögulegum niðurstöðum á opinbera markaðinum. Það er mjög tímafrek vinna og kallar á uppfærðar þjóðhagsspár, og við þurfum að taka hliðsjón bæði af tekju- og gjaldahliðinni.

Við þurfum ávallt, þegar við erum með ríkisfjármálaáætlun hér í þinginu í framtíðinni, að sætta okkur við að við getum ekki séð fyrir alla hluti og í sjálfu sér þarf stöðugt að vera að uppfæra upplýsingar. Áætlun langt fram tímann verður alltaf þeim annmörkum háð. Ég gerði því ekki ráð fyrir því að fram færi mjög (Forseti hringir.) djúp vinna hér í þinginu, heldur að við gætum frekar tekið stóru myndina og rætt um það hvort áherslurnar í áætluninni væru í samræmi við þingviljann.