144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu tekur stefnumótun breytingum. Það þekkja allir sem hafa lesið sér eitthvað til um herstjórnarlist að Napóleon Bónaparte á að hafa sagt að enginn bardagi hafi farið eins og hann hafði skipulagt. Hann var samt sem áður sá hershöfðingi sem skipulagði bardaga sína hvað best vegna þess að því betur sem þú skipuleggur hlutina þeim mun betur ertu búinn undir óvissuþætti.

Þá kemur að þessum óvissuþáttum. Mér finnst það mjög einkennilegt að ekki skuli hafa verið kallað eftir umsögnum, í það minnsta skriflegum umsögnum, frá þeim aðilum þar sem óvissuþættirnir eru. Hvað sýnist ykkur, Íbúðalánasjóður? Hvað sýnist ykkur, aðilar vinnumarkaðarins? Sjáum við fram á samdrátt í ferðaþjónustu eða aflabrest í sjávarútvegi, verðfall á útflutningsmörkuðum, örðugleika í viðskiptalöndum? Hvað með Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins? Það hefði átt að kalla eftir umsögnum frá þessum aðilum þannig að í nefndaráliti, sem kemur fram sex vikum eftir að málið er lagt fram, væru ábendingar, eftir góða vinnu þingsins, um það hverjir þessir áhættuþættir séu, að þeir séu skýrari og sér í lagi í ljósi þess að þeir hafa líka breyst. Þessu er ekki til að dreifa.

Finnst hæstv. ráðherra ekki eðlilegt að þingið sendi að lágmarki út umsagnarbeiðnir til þeirra aðila sem geta varpað ljósi á þessa hluti? Væri ekki jafnvel eðlilegt að þeir yrðu kallaðir til þannig að hægt væri að ræða við þá? Þetta mál lá fyrir í þinginu í sex vikur. Oft er beðið um umsagnir á einni viku, það hefði klárlega verið hægt. Finnst ráðherra í alvöru ekki eðlilegt að kallað hefði verið eftir umsögnum? Finnst ráðherra ekki eðlilegt, fyrst við höfum tíma, að málið fari til nefndar og við fáum eitthvað af umræddum aðilum á fund og fáum skýrari mynd í nefndarálitið þó að við breytum ekki þingsályktunartillögunni sjálfri; að það liggi sem viðhengi frá þinginu svo að stefnumótunin verði skýrari til framtíðar?