144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Orðalagið í áætluninni er bara vísbending um að skjalið hafi ekki verið lesið það vel yfir. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur sagt, þó að hann breyti orðalagi sínu aðeins núna, að við erum að ræða um fjármagnshöft en ekki gjaldeyrishöft. Samt slæðist þetta orðalag inn. Það er bagalegt. Það sýnir að þetta var ekki það vel unnið. Það gefur okkur mynd af því hvernig allt þetta verklag er, hvernig þetta er unnið.

Þetta er ekki allt lagt fram samkvæmt lögum. Ókei, maður skilur kannski að menn vilja fara af stað með þetta og prófa o.s.frv. En þeir þurfa að fara af stað með þetta samkvæmt lögum. Þeir fóru ekki alveg að lögum, það var ekki allt gert samkvæmt þingsköpum, ekki öll atriðin sem átti að leggja fram samkvæmt þingsköpum, það var ekki gert. Mönnum finnst þá kannski allt í lagi að gera þetta í einhverjum hálfkæringi. Ég veit það ekki.

Þegar ég tek að mér vinnu reyni ég að fókusera á færri þætti og gera þá vel og fara ekkert af stað nema hægt sé að gera það vel. Menn verða að meta það sjálfir hvernig þeir vilja vinna þetta. En þetta er ekki vel unnið. Ef Alþingi samþykkir þetta þá samþykkir það að stjórnvöld fari eftir stefnumótun sem hvílir á (Forseti hringir.) grundvelli sem klárlega er ekki lengur til staðar.