144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið í lögum um þingsköp nokkuð lengi, þessu hefur bara ekki verið fylgt eftir. Menn geta haft á því skoðun að þetta hafi átt að vera betra og ítarlegra en það er núna en þetta er gríðarlega stór breyting frá því að vera ekki neitt. Reyndar tel ég að þetta sé góður grunnur til þess að ræða og fara yfir.

Ég held, virðulegi forseti, að ef við værum í öðru en í stjórnmálum, ef við værum á einhverjum öðrum stað, mundum við komast að þessari niðurstöðu: Það er mjög gott að þetta komi fram, þetta er góður grunnur. Nú skulum við klára frumvarpið um opinber fjármál af því að þá erum við hvort sem er að fara í annað verklag en þetta. Þetta er grunnur sem við byggjum á og hann fer ekkert frá okkur. Við skulum ræða kosti og galla við plaggið eins og það liggur fyrir núna.

Það er alveg ljóst að það eru óvissuþættir í þessu, en þetta er góður grunnur til að vinna á þegar við förum í verklagið varðandi opinberu fjármálin. Þannig held ég að flestir mundu nálgast málin. Síðan geta menn auðvitað gert ágreining út af því.

Ég held að enginn hafi séð það fyrir sér að málið mundi taka þennan vinkil og yrði lagt upp með þessum hætti. Það verður að viðurkenna það eins og ég ætla að koma að, ef ég get haldið ræðu (Forseti hringir.) hér á eftir, og fara nánar yfir.