144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Umræðan tók nú aldeilis kipp og varð talsvert áhugaverðari, ef sú sem hér stendur á að lýsa sinni upplifun, eftir að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og einnig varaformaður hv. fjárlaganefndar komu inn í andsvör.

Ég vil taka undir orð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann segir að þegar svona mál, líkt og ríkisfjármálaáætlun til einhverra ára, er til umræðu séu alltaf einhverjir óvissuþættir uppi og ekki sé stöðugt hægt að uppfæra áætlunina. Út af fyrir sig er ég alveg sammála því.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þm. Jón Þór Ólafsson hvort hann sé sammála mér í því að þegar það fellur saman að svona mikilvægt mál er til umræðu og frumvörp, sem hreinlega hafa áhrif á forsendurnar sem þar er verið að gefa sér — eins og gerðist hér í gær þar sem komu fram frumvörp til laga um stöðugleikaskatt, frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki og frumvarp til laga um húsnæðisbætur — sé eðlilegt að hlé sé gert á umræðunni og nefndin taki málið til sín svo að þess sjái í það minnsta stað í nefndaráliti að þingið hafi áttað sig á því að þarna falli fjögur stór mál saman á sama tíma.