144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Þær ótrúlegu og jafnframt góðu fréttir hafa borist að til standi að halda fund formanna þingflokka. Hann hefur verið boðaður klukkan sex og ég fagna því sérstaklega. Ég held að það lafi innan þeirra marka að heita seinni partur, (Gripið fram í: Seinna í dag.) seinna í dag og klukkan (Gripið fram í: Klukkan er sex.) er sex og það sé í sjálfu sér ágætt. Ég fagna því og vonast auðvitað til að sá fundur verði til þess að færa málin eitthvað nær lausn.

Ég fagna því líka undir þessum lið að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur látið færa sig ofar á mælendaskrá í góðri sátt við aðra sem þar voru og vonast til þess að hann hlutist til um það að umræðu um málið hér verði frestað í ljósi þess að umræðan verður í raun flutt inn í nefndina í fyrramálið. Ég held að það sé vel málefnalegt að við tökum þá til við næsta mál á dagskrá þingfundarins. Þó að klukkan sé að verða sex held ég að það sé vit í því að við sjáum hvert formannafundurinn leiðir okkur áður en við tökum ákvarðanir um framhald þingfundar að öðru leyti en hvet hv. þingmann til að taka þeirri málaleitan vel.