144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Ég fagna því að hér á að vera formannafundur með formönnum flokkanna klukkan sex. Það má ekki seinna vera. Þessu var lofað í gær og sannast að segja varð fólk fyrir talsverðum vonbrigðum fyrir klukkutíma eða svo þegar ljóst varð að ekki var búið að boða fund og jafnvel að það gæti verið óvíst um hvort fundur yrði haldinn.

Líkt og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir vonast ég eftir því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson liðki fyrir málum í sinni ræðu og ég ætla að segja það hreint út að ég vona að hann leggi það til að málið verði takið af dagskrá þangað til eftir fund fjárlaganefndar á morgun sem hann hefur af miklum krafti staðið fyrir og hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) tekur vel í að mæta á. Ég treysti því að nú fari góðir menn að láta til sín taka í þessum þingsal.