144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég fagna því að búið sé að boða til formannafundar eins og til stóð. Það er ágætt því að ég var orðin hrædd um að sá hluti samkomulagsins stæðist ekki. Sem betur fer ætla formenn að hittast klukkan sex ásamt forseta og ég vona að niðurstaða þess fundar verði jákvæð og góð fyrir þingstörfin.

Að beiðni minni hluta fjárlaganefndar verður fundur í fyrramálið til að ræða stöðu og gildi ríkisfjármálaáætlunarinnar sem við erum að ræða hér og er á dagskrá. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni fjárlaganefndar, fyrir að bregðast mjög skjótt við á jákvæðan hátt en jafnframt finnst mér ástæða til að fara fram á að þar til niðurstaða þess fundar er ljós, þar sem nefndin mun ræða stöðu og afgreiðslu ríkisfjármálaáætlunar, verði hún tekin af dagskrá og öðrum málum hleypt að á meðan.