144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að fylgjast með þessari umræðu eins og ég hef getað. Hún er búin að vera nokkuð löng. Ég skal alveg viðurkenna að hún kemur nokkuð á óvart, ekki vegna þess að ég hafi talið að allir væru sammála um málið en kannski erum við svolítið mikið að ræða um formið í staðinn fyrir efnið. Eins og komið hefur fram og kom fram í andsvörum erum við að uppfylla lög um þingsköp. Það hefur ekki verið gert áður. Ég lít svo á að þetta sé eitt af skrefunum í ákveðnu þroskaferli hjá okkur þegar kemur að opinberum fjármálum, að reyna að hugsa til lengri tíma. Hæstv. ráðherra tók fram bæði í upphafsorðum sínum og andsvörum, og það kemur svo sem fram í áætluninni líka, að þetta væri mikilli óvissu háð. Það er sama hvað við gerum síðan í vinnulaginu, svo maður tali bara um hlutina eins og þeir eru, við getum ekki farið á þann stað að við köllum eftir nýrri þjóðhagsáætlun og spá til þriggja ára miðað við þær forsendur sem hafa breyst svo sannarlega, hvort sem það eru kjarasamningar eða aflétting hafta. Við þurfum að ákveða hvað við ætlum að gera með þetta. Þetta eru ekki fjárlög fyrir hvert ár fyrir sig, þetta er áætlun og við munum ekki halda þessu áfram í óbreyttri mynd ef við samþykkjum frumvarpið um opinber fjármál. Þetta er hins vegar góður grunnur til að byggja á og þessi vinna er ekki unnin fyrir gýg, þvert á móti. Þetta er kannski ekki fyrsta skrefið en að minnsta kosti eitt af skrefunum í því að komast á þann stað sem ég vonast til þess að við komumst á.

Ég ætla að fara í gegnum ýmislegt sem hér hefur komið fram. Ég skal alveg viðurkenna að ég tók svolítið mið af ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar vegna þess að þó að ég sé ósammála honum í flestu fannst mér hann fara ágætlega yfir það út frá sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar, vinstri manna í þinginu, og ætla þess vegna að hafa til hliðsjónar þá gagnrýni sem hann hafði á plaggið.

Þó að hv. þingmaður hafi ekki nefnt það, svo það sé skýrt tekið fram, hafa ýmsir talað fullum fetum um að hér hafi verið niðurskurður til velferðarmála og eru þá að vísa í heilbrigðismál og almannatryggingar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég skil ekki af hverju hv. þingmenn tala með þessum hætti þegar staðreyndirnar liggja fyrir. Ég veit ekki hvort menn telja að ef þeir segja þetta nógu oft muni allir trúa þessu. Tölurnar tala sínu máli. Það hefur verið forgangsmál að hækka framlögin og setja aukna fjármuni í heilbrigðismálin og tryggingamálin. Strax í tíð þessarar ríkisstjórnar, á sumarþinginu, voru settir 8 milljarðar til viðbótar í lífeyristryggingarnar og hefur það ekkert að gera með fjölgun lífeyrisþega eins og margir halda. Margar þeirra skerðinga, kannski allar, það er erfitt að bera þetta saman, sem var farið í í tíð síðustu ríkisstjórnar í kjölfar bankahrunsins hafa verið dregnar til baka.

Hið sama má segja um heilbrigðismálin. Þar sjáum við til dæmis að hækkanir til spítala eru langt umfram bæði verðlag og launavísitölu. Ef við förum í tannlæknaþjónustu og annað slíkt erum við að tala um miklu hærri upphæðir, 42% hækkun. Hlutfall heilbrigðismála af ríkisfjármálunum hefur hækkað líka. Þetta er ekki bara í milljörðum heldur líka hlutfallslega.

Ég bið í mestu vinsemd hv. stjórnarandstöðu, ekki að hætta að gagnrýna stjórnarliða, alls ekki, (Gripið fram í.) en fara rétt með. Það hefur verið forgangsmál hjá þessari ríkisstjórn að forgangsraða í þágu grunnþjónustu.

Hér hefur verið rætt mikið um að ríkisstjórnin hafi farið í skattalækkanir eins og það sé sérstaklega slæmur hlutur. Ég vek athygli á því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem er fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra er búinn að reikna skattalækkanir núverandi ríkisstjórnar upp í 30–50 milljarða kr. Þá vísar hann til skatta eins og auðlegðarskattsins, veiðileyfagjaldanna, vörugjalda, orkuskatta, virðisaukaskatts, bensíngjalda og tekjuskatts og væntanlega tryggingagjalds líka. Ég vona bara að þetta sé rétt, að við höfum náð að lækka skatta um 50 þús. millj. kr. Það eru auðvitað gríðarlega ánægjulegar fréttir fyrir landsmenn.

Ég ætla að fara aðeins í hvern skatt fyrir sig, fyrst auðlegðarskattinn. Auðlegðarskatturinn er eignarskattur sem síðasta ríkisstjórn setti á og kallaði tímabundinn. Það var skýrt tekið fram. Það var farið í dómsmál út af þessum skatti vegna þess að hann leggst á fólk hvort sem það er með tekjur eða ekki. Ég spurðist fyrir um þetta á síðasta kjörtímabili, nánar tiltekið á 138. löggjafarþingi, og þá kom skýrt fram að fólk greiðir þennan skatt þó að það sé ekki með háar tekjur. Þetta er nær eingöngu eldra fólk og í mörgum tilfellum þurfti fólk að selja eignir til að greiða skattinn. Samt sem áður voru ákveðnar eignir teknar út eins og lífeyriseignir. Þeir sem eiga slíkar eignir sem mundu heyra undir þennan skatt eru fyrst og fremst stjórnmálamenn sem eru búnir að vera lengi og embættismenn. Það fólk sem greiðir þennan skatt er að stórum hluta fólk sem gat ekki verið í lífeyrissjóði eða greiddi einhverra hluta ekki í lífeyrissjóð og bjó sér til lífeyrissjóð með öðrum hætti. Og það er rangt að við höfum afnumið auðlegðarskattinn, hann var látinn renna út, lögin voru ekki endurnýjuð. Það er umhugsunarefni að stjórnmálamönnum finnist það vera eðlilegasta mál í heimi að segja: Þetta er tímabundinn skattur, en segja síðan seinna: Heyrðu, þetta var allt í plati, hann átti aldrei að vera tímabundinn.

Í mjög góðu viðtali við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur sem þá var hæstv. ráðherra, ég meina það, það var gott viðtal þar sem margt skynsamlegt kom fram hjá hv. þingmanni — af því að ég starfa með hv. þingmanni í fjárlaganefnd kom það ekkert á óvart enda er hv. þingmaður oftar en ekki bæði málefnalegur og leggur gott til málanna — tók hún skýrt fram að auðlegðarskatturinn yrði ekki endurnýjaður. Hún fór líka mjög skynsamlegum orðum um það hvernig hún vildi sjá breytingarnar á virðisaukaskattinum, ekkert ósvipað þeirri leið sem núverandi ríkisstjórn hefur farið í. Röksemdir hv. þingmanns áttu algjörlega rétt á sér og ég get tekið undir þær. Það er nákvæmlega eitt af því sem núverandi ríkisstjórn hefur farið í, að minnka bilið á milli skattþrepa. Af hverju? Vegna þess að þegar bilið er of mikið ýtir það undir skattundanskot. Það heitir á tæknimáli að virðisaukaskattskerfið sé ekki skilvirkt og í sumum tilfellum má færa rök fyrir því að viðkomandi atvinnurekandi geti ráðið hvaða skattprósentu hann greiðir þegar um mörg þrep er að ræða. Það er kerfi sem engum gagnast, allra síst þeim sem reiða sig hvað mest á peninga frá hinu opinbera, þeim sem minnst mega sín.

Ég var að vonast til þess að það yrði þokkaleg sátt um þessa hluti og hvet hv. þingmenn til að lesa grein fyrrverandi hæstv. ráðherra, Sighvats Björgvinssonar, fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins, um tilurð virðisaukaskattskerfisins og hvernig það var þróað, grein sem birtist fyrir nokkru í DV. Í stuttu máli er það þannig að allir flokkar fá sinn skerf af gagnrýni. Upphaflega var samstaða um að hafa skattinn eitt þrep og án undanþágna en síðan fóru stjórnmálamenn í öllum flokkum að hola kerfið í sundur og niðurstaðan varð sú að við vorum komin með hæsta virðisaukaskattsþrep á byggðu bóli. Það er sem betur fer ekki lengur þannig vegna þess að okkur hefur tekist að lækka hæsta þrepið. Ef einhver heldur því fram að þeir sem hafa minnstu tekjurnar greiði ekki hæsta virðisaukaskattsstigið er viðkomandi einstaklingur annaðhvort að tala gegn betri vitund eða veit ekki á hvaða vörur virðisaukaskatturinn leggst.

Veiðileyfagjöldin eru þess eðlis að breytingarnar fólust fyrst og fremst í því að veiðileyfagjöld voru tekin af litlum og meðalstórum útgerðum og sett á stærstu útgerðirnar. Ég vek athygli á því, af því að menn tala hér eins og þetta sé endalaus uppspretta auðs og skatta, að ein þjóð innan OECD tekur veiðileyfagjöld, sem tekur skatta hvað þetta varðar. Allar aðrar þjóðir greiða með útgerðinni. Það er ágætt að hafa það í huga þegar menn gagnrýna fiskveiðistjórnarkerfið að þannig er málum fyrir komið. Áður en við ætlum að breyta því í grundvallaratriðum ættum við að huga að því af hverju við missum ef við gerum það. Það er afskaplega ánægjulegt að við séum að taka háar fjárhæðir í hina sameiginlegu sjóði okkar landsmanna í stað þess að þurfa að greiða með sjávarútveginum eins og aðrar þjóðir hafa gert og við höfum reyndar þurft að gera í gegnum tíðina með allra handa hætti.

Auðvitað getum við farið út í að hækka veiðileyfagjöld. Það mun kalla á aukna hagræðingu og þýðir þá einfaldlega að við verðum með færri fyrirtæki, það segir sig sjálft, og þau fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á því að þurfa að sameinast og renna inn í stærri útgerðirnar eru litlu og meðalstærri útgerðirnar. Ef menn vilja það eiga menn að kalla á aukna skattheimtu hvað þetta varðar.

Hér hefur sömuleiðis verið gagnrýnt að við hækkum ekki bensíngjöld, olíugjöld, þungaskatt o.s.frv. Það er alveg hárrétt, ég vona að við munum frekar lækka það en hækka. Ég tel að það séu margar ástæður fyrir því að við eigum ekki að skattpína almenning meira en orðið er. Ég er afskaplega ánægður með það, virðulegi forseti, að við séum að stíga hér stór skref í að lækka tekjuskatt. Betur má ef duga skal. Mér líður ekki illa yfir því að fólk með meðaltekjur fái að finna mest fyrir því. Ég held að það sé afskaplega ánægjulegt.

Í þessu samhengi hefur sömuleiðis verið talað um að það sé svo skelfilegt að ýta undir stóriðju. Ég spurði hv. þm. Steingrím J. Sigfússon af hverju síðasta ríkisstjórn hefði gengið jafn hart fram og raun bar vitni á síðasta kjörtímabili. Við erum að tala um að til dæmis eru hér komin af stað göng sem eru bara fyrir atvinnureksturinn á Bakka. Það á að byggja göng sem áttu að kosta 1,8 milljarða en kostnaðurinn hefur hækkað upp í 3,1 milljarð og göngin eru bara fyrir atvinnustarfsemina á Húsavík, ekki fyrir almenning, göng sem kosta 3,1 milljarð. Í fyrramálið munum við í hv. fjárlaganefnd kalla eftir upplýsingum um hvernig getur staðið á þessu á fundi sem hér hefur verið ræddur. Hvers konar áætlun er það hjá síðustu ríkisstjórn um göng upp á 1,8 milljarða sem hækka síðan í einni svipan upp í 3,1 milljarð, 3.100 millj. kr.? Sömuleiðis verður spurt út í Vaðlaheiðargöngin, en forsendan fyrir atvinnuuppbyggingu þar var Vaðlaheiðargöngin, í það minnsta var framkvæmdin kynnt með þeim hætti. Því miður virðast áætlanir ekki heldur hafa staðist hvað það varðar.

Síðan erum við með ívilnunarsamninga varðandi þessa stóriðju þar. Það er í það minnsta meira í orði hjá síðustu ríkisstjórn að vera á móti stóriðju en á borði. Ekki verður annað séð en að menn hafi farið í ansi stórar framkvæmdir til að koma þessari stóriðju á laggirnar, mjög stórar framkvæmdir sem eru greiddar úr opinberum sjóðum. Þetta liggur allt fyrir og nú geta menn verið sammála um að byggja upp stóriðju, en við hljótum hins vegar að vera sammála um að við þurfum að vanda áætlunargerð. Því miður hefur það ekki gengið, gekk ekki hjá síðustu ríkisstjórn og við þurfum að fara vel yfir það til að læra af þeim mistökum.

Fyrir bankahrun tókst okkur að greiða niður skuldir, sem betur fer. Þjóðin væri nú í mjög erfiðum málum ef það hefði ekki tekist. Það hefur vantað upp á agann í opinberum fjármálum. Þegar síðasta ríkisstjórn tók við gekk mjög vel, hún náði umtalsverðum árangri í agamálum, en þegar hún skildi við var því miður agaleysi í rekstrinum orðið mjög mikið ef marka má skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var gerð eftir mitt ár 2013. Þá var agaleysið um 38% og var orðið mun meira en hafði sést í mjög langan tíma. Ég vona að við séum ásátt um að laga þetta. Ég ætla ekkert að fara að velta mönnum neitt upp úr þessu til eða frá. Ég held að stóra einstaka málið sé að við þurfum að ná saman um að vinna úr þessu. Þess vegna er svo mikilvægt að við ræðum frumvarp um opinber fjármál, lærum af þeim þjóðum sem hefur gengið vel hvað þetta varðar, t.d. Svíum. Við höfum tekið þá sérstaklega fyrir. Síðasta fjárlaganefnd heimsótti Svíana, við gerðum það í miðju vinnulaginu hér. Við erum búin að halda 25 nefndarfundi um opinber fjármál. Af því að hv. þm. Jón Þór Ólafsson var að velta fyrir sér vinnulaginu má nefna að við settum það frumvarp í forgang af því að þar erum við að leggja fram til lengri tíma. Með fullri virðingu fyrir þessari áætlun er, ef okkur tekst vel til og við samþykkjum frumvarp um opinber fjármál, það auðvitað miklu mikilvægara en þessi áætlun — með fullri virðingu fyrir henni og án þess að ég vilji gera neitt lítið úr henni, virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði af hverju ekki hefði verið tekinn meiri tími í forgangsmálið. Ég vona að það svari því að á þessu vori voru forgangsmálin tvö, annars vegar opinberu fjármálin og hins vegar að hafa eftirlit með fjárlögum ríkisins. Ég held að það sé rétt forgangsröð.

Hér hafa verið rædd S-merkt lyf og lyfjakostnaður almennt. Það er nokkuð sem við þurfum að ræða, það er af þeirri stærðargráðu að það skiptir verulega miklu máli þegar kemur að fjármálum ríkisins. Þetta er málaflokkur sem þjóðinni tekst mismunandi vel upp með. Það er svolítið magnað að ein ríkasta þjóð heims, Norðmenn, hefur náð árangri þegar kemur að því að halda þessum kostnaði niðri. Þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur og eðli máls samkvæmt er auðvelt að spila á tilfinningar hvað þetta varðar. Ég vonast til þess að við náum að ræða það málefnalega og læra af þeim sem hefur gengið vel því að þetta snýr ekki bara að útgjöldum ríkisins, þetta snýr náttúrlega líka að því að ef kostnaðurinn fer upp úr öllu valdi verður minna annars staðar. Það segir sig alveg sjálft. Það á sérstaklega við í heilbrigðisþjónustunni. S-merkt eru þau lyf sem er allur gangur á hvernig virka vegna þess að þau eru glæný og lítil reynsla komin á þau. Flest ríki koma sér upp einhverju því fyrirkomulagi að ákvörðun um hvaða lyf eru tekin inn er tekin frá stjórnmálunum, menn reyna að ýta þessu frá stjórnmálunum. Menn eru til dæmis með sérstakar stofnanir eða nefndir þar sem siðfræðingar, læknar og aðrir slíkir taka ákvörðun um hvaða lyf eru tekin inn. Menn reyna eðli málsins samkvæmt að ná eins hagkvæmum kaupum á lyfjunum og mögulegt er. Svo sannarlega gera líka lyf oft gríðarlegt gagn og við viljum vera í fremstu röð þegar kemur að því að veita þessi lyf, hvort sem eru þessi eða önnur.

Mér fannst ánægjulegt að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon skammast, svo ég hrósi honum líka af því að ég tók hann sérstaklega fyrir af því að mér fannst hann fara ágætlega yfir þetta, yfir því að hér væri frumjöfnuður ekki nægur og segja sömuleiðis að það ætti að ganga lengra í að greiða niður skuldir. Það er mjög góð og eðlileg gagnrýni. Þetta er nokkuð sem við eigum að setja okkur markmið um sem við getum verið sammála um að ná. Ég get alveg verið sammála um að við eigum að ganga lengra hvað það varðar. Síðan er hitt, að við erum á misjöfnum stað í stjórnmálunum. Við erum örugglega ekki sammála um leiðir til að ná þessu marki, en ef við náum saman um að ná þessu marki er það vel.

Einnig voru nefndar fjárfestingar. Eðli málsins samkvæmt má segja að það sé endalaus eftirspurn eftir því og mikilvægt að ganga þann veg. Þegar kemur að samgöngum þurfum við líka að taka alvöruumræðu um það hverjir eigi til dæmis að greiða fyrir uppbygginguna þegar kemur að ferðamennskunni. Stóran hluta af þessari uppbyggingu verðum við að fara í af því að við erum að byggja hér upp ferðaþjónustu, hún er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Mín skoðun er að við sem notum hana þegar við ferðumst eigum að taka þátt í því að greiða en ekki bara taka þetta úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Að endingu vil ég segja, virðulegi forseti, að ef það yrði til þess að ná einhverri betri sátt og betri anda í þessum sal held ég að það sé skynsamlegt að fresta þessari umræðu þangað til við erum búin að taka umræðuna í hv. fjárlaganefnd. Ég hvet hins vegar fólk til þess að hugsa þetta alla leið. Við erum ekki að fara að ganga fram eins og menn hafa talað hér að undanförnu. Við náum ekki að vinna þessa hluti eins og mér finnst sumir tala, eins og við ætlum að gera (Forseti hringir.) hér fjárlög fyrir hvert einasta ár næstu þrjú árin. Það er óraunhæft.