144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst illa vegið að sagnfræðingum með því að segja að það sé enginn stíll yfir því að tala um fortíðina. Hins vegar ákvað ég að taka það sem mér þótti menn vera að gagnrýna ríkisstjórnina hvað helst fyrir og ég get ekki rætt það án þess að vísa í skattstefnu síðustu ríkisstjórnar. Menn voru að gagnrýna skattstefnu núverandi ríkisstjórnar og tilgreindu þá skatta sem hér var verið að vísa til sem ég fór yfir; ég fór yfir tilurð þeirra og af hverju núverandi ríkisstjórn hefði gengið í það sem hún hefur gengið í fram til þessa og vonandi verður gengið lengra í þá átt sem hæstv. ríkisstjórn hefur gengið fram til þessa.

Við erum alveg sammála um það, ég og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, að við eigum að ræða efnislega um þessi mál og takast á um þau. Það er, held ég, grundvallaratriðið. Ef sú umræða er málefnaleg og byggð á staðreyndum þá (Forseti hringir.) er það bara mjög gott.