144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af forminu: Ef við erum að ná saman um að setja einhver orð á blað án þess að tefja málið eða byrja á núlli þá bara gerum við það. Ekki stendur á mér að finna einhvern flöt á því. En ef þetta snýst um að koma hlutunum á byrjunarreit, svo að ég tali bara hreint út, til að tefja málið þá er ég ekki til í slíkan leik, svo að það sé bara sagt.

Munurinn á okkur sem erum í hægri pólitík og þeim sem eru í vinstri pólitík — mér finnst þið, með fullri virðingu, tala of mikið um að þetta sé bara ein kaka, að hún sé óumbreytanleg og svo verði bara að rífast nógu mikið um það hvernig eigi að skipta henni. Ég vil baka fleiri kökur.

Auðvitað eru skattar nauðsynlegir, við rekum ekki þjóðfélag án þeirra. En ég tel hins vegar miklar líkur á því að við munum ekki gera það, stjórnmálamennirnir. Það er fólkið sem vinnur á hinum frjálsa markaði sem skapar nýbreytni í vinnu. Við ræddum hér um hátæknifyrirtæki og líka um ferðaþjónustuna. Það er stórkostlegt að sjá hvernig fólk hefur bjargað sér hvað það varðar. Ég sé á hverjum degi, til dæmis hér í Reykjavíkurborg, fólk sem leiðsegir, fólk sem er að búa til verðmæti og veita ferðamönnum góða þjónustu. Ef þú ferð út á land þá er algjör bylting. (Forseti hringir.)

Við stjórnmálamennirnir gerum þetta ekki. Við þurfum að skapa aðstæðurnar. Ef við sköpum aðstæðurnar — sem eru lágir skattar, sanngjarnir skattar — munum við sjá kökuna bakast.