144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi hefur með lögum skyldað ráðherra til að leggja fyrir þingið áætlun um það hvernig það ætlar að fara með skattfé landsmanna. Þetta er mikilvægt. Þingnefndin, fjárlaganefnd, fær þetta mál til sín, segist ekki hafa nógan tíma til að ræða það, að verið sé að gera þetta í fyrsta skipti, en hún nýtir sér ekki einu sinni þá aðila í samfélaginu sem gætu gefið nefndinni ókeypis umsagnir, álit á þessari áætlanagerð ráðherra um það hvernig hann ætlar að fara með skattfé. Mér finnst það óábyrgt.

Nefndin hafði málið hjá sér í mánuð. Það tekur að lágmarki viku að fá slíkt ókeypis álit hagsmunaaðila í samfélaginu um það hvernig þessi áætlun ráðherra, um það hvernig hann ætlar að fara með skattfé, lítur út. Nefndin getur enn þá gert þetta. Ég ætla að spyrja hæstv. sitjandi formann fjárlaganefndar hvort hann sé ekki tilbúinn til þess að senda þetta á morgun og þá fari þetta mál (Forseti hringir.) til umsagnar og frestur sé gefinn út vikuna þannig að við fáum eitthvað í hús.