144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki alveg nákvæmt hjá hv. þingmanni að segja að þetta snúist um það að hér sé verið að útdeila skattfé því að við gerum það í fjárlögum. Eins og líka hefur komið fram þá er ekki farið eftir laganna hljóðan um það hversu nákvæmt er farið í þessa áætlun; það hefur komið fram hjá mörgum hv. þingmönnum og er staðreynd máls.

Ég held að það muni ekki breyta stóra málinu hvort við sendum þetta til umsagnar núna. Eins og ég nefndi og fór yfir þá forgangsraðaði nefndin á þann veg að leggja mesta áherslu á opinberu fjármálin sem við höfum unnið að í mörg ár. Við erum búin að halda 25 fundi, við erum búin að fara til Svíþjóðar, hv. fjárlaganefnd, og það er afskaplega mikilvægt að klára það verk. Ég er bara hreinskilinn í því.

Við bara forgangsröðuðum í þá veru. Af hverju? Með fullri virðingu fyrir þessu — efnislega er þetta allt rétt sem hv. þingmaður segir og hann getur alveg gagnrýnt okkur fyrir það — þá settum við orkuna í opinberu fjármálin. Þau eru mikilvæg. Þá erum við að fara í breytt (Forseti hringir.) vinnulag í samræmi við það sem við segjumst öll í orði kveðnu vilja gera.