144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[18:43]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um þetta mál við 3. umr. þess, en að því nefndaráliti stendur ásamt mér hv. þm. Árni Páll Árnason.

Það eru í sjálfu sér ekki stórvægileg atriði sem skilja okkur frá meiri hlutanum. Að verulegu leyti var það efni sem hér er undir og við fjöllum fyrst og fremst um í okkar nefndaráliti, þ.e. tiltekin atriði sem tengjast svonefndum milliverðlagningarreglum, til bóta en við höfðum ekki sannfæringu fyrir því að fyrir tilteknum breytingum, sem í fyrsta lagi voru lagðar til í frumvarpinu sjálfu og svo í öðru lagi sem meiri hlutinn hallaðist að því að gera milli 2. og 3. umr., stæðu nógu góð rök. Við kusum því að skila sérnefndaráliti og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum.

Þetta snýr í fyrra laginu að svonefndri skjölunarskyldu sem innleidd var með tilteknum fjárhæðarmörkum og hugsunin sú að til að styrkja umgjörðina um verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila verði stærri fyrirtækjasamsteypur og fyrirtækjasamstæður, sem sagt tengdir aðilar í þessum skilningi, felldar undir svonefnda skjölunarskyldu. Þannig var þetta fært í lögin á sínum tíma og þannig var gengið frá málinu eftir 2. umr. að það skyldi haldast inni, en vissulega þekktum við sjónarmiðin um að þetta gæti verið íþyngjandi, sérstaklega fyrir minni aðila. Það var nokkur þrýstingur á nefndina að fella þessa skjölunarskyldu niður og fara þar að fyrirmyndum sem menn töldu sig þekkja erlendis að hún ætti ekki við þegar um viðskipti innan lands væri að ræða.

Nú er það að sönnu ljóst og rétt að megintilgangur skjölunarskyldunnar er að styrkja umgjörðina um viðskipti yfir landamæri á milli gjaldmiðlasvæða o.s.frv. og milli ólíkra skattalögsagna, en það er ekki þar með sagt að skjölunarskylda og skýrar reglur um milliverðlagningu, eðlilega verðlagningu þó að viðskipti milli tengdra aðila séu á ferð, geti ekki líka þjónað tilgangi í innlendum rétti og varðandi innlend viðskipti.

Það má vel færa fyrir því rök að stórar samstæður tengdra aðila, móðurfélög og nokkur dótturfélög eða aðilar þar sem um verulega sterk eignatengsl er að ræða þó að þau séu ekki samstæða, geti haft hag af því að haga slíkri verðlagningu með sérstökum hætti, tímabundið að minnsta kosti frestað mögulegum skattgreiðslum með því að láta afkomubata eða hagnað koma fremur fram hjá einum aðila en öðrum sem kannski á geymt uppsafnað tap o.s.frv. Vissulega eiga slík viðskipti að vera á eðlilegum grunni hvort sem er og um það eru ákvæði í lögum. Skjölunarskyldan ein og sér breytir því ekki en hún bætir verulega möguleika til eftirlits með því að um eðlilega verðlagningu sé að ræða. Mönnum er þá skylt að skjala þessi viðskipti hinna tengdu aðila og það er hægt að ganga að þeirri skjölun og fletta upp í henni á hverjum tíma.

Sá sem hér talar hafði því ekki sannfæringu fyrir því að það væri ástæða til eða rétt að ganga svo langt að fella þessa skjölunarskyldu með öllu niður gagnvart innlendum aðilum þó að vissulega taki ég sumpart undir þau rök að hún sé mikilvægari þegar um viðskipti yfir landamæri er að ræða.

Nú eiga að sjálfsögðu slíkir stórir aðilar og stórar samstæður oft í hlut í þeim tilvikum þar sem starfsemi þeirra er að einhverju leyti fólgin í kaupum og sölu yfir landamæri, kannski sölu framleiðsluvöru yfir landamæri til dótturfélags í útlöndum sem annast söluna og þá fellur skjölunarskyldan að sjálfsögðu á, en ég sé ekki að hjá nokkrum stærstu fyrirtækjasamstæðunum eða fyrirtækjasamsteypunum innan lands sem eru stórar og með mikil umsvif og hafa mikla veltu að smávægilegur kostnaður, hugsanlega stofnkostnaður upp á 2–5 millj. kr. og fastur árlegur kostnaður upp á 1–2 millj. kr., breyti miklu þegar um er að ræða milljarða- eða milljarðatugaveltu.

Við í minni hlutanum vorum vel tilbúnir að fallast á að færa þessi stærðarmörk upp þannig að til dæmis væri miðað þar við 5–10 milljarða kr., 10–15 milljarða kr. ef því væri að skipta, og þar með féllu fyrst og fremst nokkrar stærstu samstæðurnar í landinu undir þetta og ekki hægt að segja að nokkurra milljóna stofnkostnaður og 1–2 milljónir á ári í að framkvæma skjölunarskylduna breyttu miklu.

Ég gæti farið út í frekari rökstuðning fyrir því af hverju það gæti verið gagnlegt að viðhafa þessa skjölunarskyldu á stærstu samstæðurnar. Ég get nefnt tvö dæmi sem eru nokkuð augljós, í innbyrðis viðskiptum tengdra aðila í sjávarútvegi þar sem um er að ræða hráefnisöflun, veiðar, á einni hendi og síðan vinnslu á annarri og milliverðlagningin í þeim viðskiptum ætti að vera hv. þingmönnum vel kunn því að hún er gjarnan undirrót mikilla deilna um hlutaskipti sjómanna og um samskipti slíkra samþættra aðila annars vegar við aðila í sjávarútvegi sem eru með aðskildar veiðar og vinnslu, þ.e. vinnslur sem ekki eru með veiðar á sinni hendi, hafa ekki veiðiheimildir og þurfa að kaupa allt sitt hráefni. Þessi samskipti hafa verið vandasöm undanfarin ár og á löngum tíma. Það þekkir sá sem hér talar nokkuð vel sem sjávarútvegsráðherra nokkrum sinnum á undanförnum árum að mikil deilumál hafa gjarnan risið út af þessu. Kröfur um frekari aðskilnað og skýrari reglur um verðlagningu í þessum viðskiptum hafa verið háværar frá sjómönnum og frá samkeppnisaðilum. Auðvitað væri í sjálfu sér framför ef stærstu samstæðurnar í þessum tilvikum væru settar undir sem mjög skýrar reglur um eðlilega verðlagningu í innbyrðis viðskiptum, að þau skyldu lúta armslengdarreglum og vera á eðlilegum kjörum.

Annað dæmi gæti verið stórar verslunarsamstæður sem eru í talsverðum viðskiptum við tengda aðila, dótturfélög eða tengda aðila um innkaup og/eða vörudreifingu. Þá eru þeir í tiltekinni stöðu gagnvart þessu fyrirtæki á meðan ótengdir birgjar eða aðrir þjónustuaðilar hafa aðra stöðu að þessu leyti. Ég sæi ekkert að því þó að stærstu verslunarkeðjurnar eða samstæðurnar tvær eða þrjár væru skjölunarskyldar þannig að það væri þá til þess fallið að skýra leikreglurnar að þessu leyti og eyða tortryggni sem annars er gjarnan uppi um verðlagninguna í slíkum tilvikum. Við þekkjum í þeim efnum til dæmis skýrslu Samkeppniseftirlitsins um stöðu minni birgja gagnvart þessum stóru aðilum o.s.frv.

Á þessu eru að minnsta kosti tvær hliðar sem færa má fram sem rök fyrir því að menn ættu kannski að gefa meiri gaum að því hvort skjölunarskylda mætti ekki gjarnan vera á viðskiptum tengdra aðila þegar í hlut eiga stærstu fyrirtækjasamstæðurnar innan lands.

Ég veit auðvitað að menn vísa til þess, bæði í hinum skattalega skilningi og líka hvað varðar þau sjónarmið sem ég hef hér reifað, að það eigi að vera hægt að taka á því í öðrum lögum og þar eigi menn auðvitað að hafa þessi viðskipti á eðlilegum grunni. Allt er það í sjálfu sér rétt, en skjölunarskyldan kemur ekki til að ástæðulausu. Hún er viðleitni til þess að ná betur utan um þessi mál, vissulega sérstaklega að menn noti ekki innbyrðis viðskipti tengdra aðila eða samstæðna til að hliðra sköttum milli landa. Það er kannski megintilgangur hennar í evrópskum rétti, en það getur líka orðið skattahliðrun eða skattaseinkun innan lands í slíkum viðskiptum. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því, það getur leitt til þess að hagnaður sem myndast á ákveðnum tíma og ætti að vera skattandlag, t.d. í móðurfélagi samstæðunnar, færist í reynd niður til einhvers dótturfélags sem eigi uppsafnað tap, skattgreiðslurnar frestast og síðan breytast kannski aðstæður, fyrirtækið fer úr hagnaði yfir í tímabundna afkomu þar sem ekki er hagnaður af starfseminni, jafnvel tap, og þar með mundi í raun og veru myndast skjól til að skattgreiðslurnar sem ekki komu til greiðslu á réttum tíma kæmu annaðhvort seinna eða mögulega aldrei fram sem raunverulegar skatttekjur. Ég veit að þetta er orðið nokkuð tyrfið en miðað við leikmannsþekkingu mína á þessu og þar sem ég þekki hugkvæmni manna, ýmissa hverra, í því að nota sér ýmsar leiðir til að borga sem minnst til samfélagsins, því miður, læt ég eftir mér að reifa þessi sjónarmið.

Hitt atriðið sem við í minni hlutanum gerum að umtalsefni, og gerðum reyndar strax athugasemdir við, var sú niðurstaða sem kom á óvart, að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að lögbundin tilvísun til milliverðlagningarreglna Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD verði felld úr lögunum. Þetta kemur svolítið á óvart vegna þess að fyrir ekki meira en ári var sérstaklega mælt með því af umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar að það væri einmitt mjög gott að lögfesta tilvísun í milliverðlagningarreglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar því að það væri stoð í því að hafa það í lögum að gefa þeim í raun og veru slíka stöðu. En nú hefur niðurstaðan orðið sú að fella tilvísunina brott úr lögunum, þ.e. meiri hlutinn leggur til að sú verði niðurstaðan, m.a. með þeim rökum að þær verði eftir sem áður notaðar til skýringar ákvæða um mat á milliverðlagningarreglum eða leiðréttingar á verðlagningu, að þá muni menn grípa til reglnanna eftir sem áður ef þarf að grípa inn í og segja að verðlagning sé ekki eðlileg, hún eigi að framkvæmast svona en ekki svona, samanber milliverðlagningarreglur OECD. En hvers vegna þá ekki að hafa þær áfram í lögum? Ég hef engin rök heyrt fyrir því að það sé til trafala á nokkurn hátt. Ég þekki ekki nein lagalega stjórnskipuleg vandkvæði á því að vísa til þeirra eins og gert er í gildandi lögum þannig að ég sé ekki alveg rökin fyrir breytingunni. Það er hitt atriðið sem við í minni hlutanum gerum athugasemdir við og veldur því að við skilum sérstöku nefndaráliti.

Þá ætla ég aðeins að víkja að breytingartillögum sem fluttar eru af annars vegar meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og hins vegar af nefndinni í heild.

Í fyrra lagi er breytingartillaga á þskj. 1040 og framsögumaður, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, gerði ágæta grein fyrir henni. Þar er um að ræða annars vegar breytingu á tilvísunum í tilteknar greinar og hundraðshlutföll í lögum um virðisaukaskatt og eru lagfæringar á breytingum sem spretta að einhverju leyti af því sem í gangi var í sömu löggjöf fyrir áramótin. Þá urðu, eins og kunnugt er, talsverðar breytingar á lögum og fyrirkomulagi virðisaukaskatts. Hitt er svo lagfæringar á einhverjum tollskrárnúmerum, hv. þingmenn geta kynnt sér þær á nefndu þingskjali og ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að eyða miklu púðri í það mál. Þetta eru að sjálfsögðu bara eðlilegar lagfæringar, engin ástæða til að hafa efniságreining um það, þannig að þó að breytingartillagan sé flutt af meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar lýsum við ekki í sjálfu sér andstöðu við hana.

Svo neyðarlega tókst þó til að í viðauka við lögin láðist að breyta hlutfallstölunni 7 í 11 þegar matarskatturinn var hækkaður þannig að svo sem mætti spyrja hvort sú breyting hefði þá verið að fullu leyti á lögum reist úr því að á tilteknum stað í lögunum stóð áfram að neðra þrepið í virðisaukaskatti skyldi vera 7%. Þessu er þá sjálfsagt að kippa í liðinn úr því að niðurstaðan er orðin sú að lægra þrepið var fært upp í 11 af hundraði.

Þá er hins vegar breytingartillaga á þskj. 1382 sem er flutt af efnahags- og viðskiptanefnd í heild sinni. Þar eru opnuð upp, þótt vissulega sé við 3. umr., lög um tryggingagjald. Þetta er orðinn ansi myndarlegur bandormur, satt best að segja, enda þarf að lengja fyrirsögn frumvarpsins, þetta er þá orðið að breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum, lögum um virðisaukaskatt með breytingartillögunni þar um og loks lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum. Allt þetta þarf þá að tínast inn í fyrirsögn frumvarpsins.

Ástæða þess að þessi breytingartillaga er flutt af allri nefndinni er þau ánægjulegu tíðindi að ríkisstjórnin sá loks að sér með áform sín um að skerða eða fella niður þátttöku ríkisins í jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða gegnum tryggingagjald eins og verið hefur við lýði undanfarin ár. Hún kom fram með þau áform í bandormi tengdum fjárlagafrumvarpinu í haust að þetta framlag sem er upp á eina 3–4 milljarða kr., ef ég man rétt, yrði fellt niður í jöfnum skrefum á næstu fjórum árum. Þetta vakti mikla athygli margra og sætti gagnrýni, ekki síst vegna þess að það kom í ljós að þetta var ein af nokkrum algerlega einhliða ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hugðist gera á þáttum sem alltaf hafa verið að einhverju leyti sameiginlegt umfjöllunarefni ríkisins og aðila vinnumarkaðarins, í þessu tilviki fyrir hönd lífeyrissjóðanna. Um þetta hefur stundum staðið styr og það hefur verið togast á um greiðsluþátttöku ríkisins, t.d. á mestu erfiðleikaárunum, en aldrei fór þó svo að ríkið hyrfi frá því að leggja svipaðar fjárhæðir af mörkum og það hefur gert núna um alllangt árabil inn í þessa jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða. Til þess hefur sem sagt að undanförnu runnið 0,325% af tryggingagjaldsstofninum.

Þá lætur nærri, frú forseti, að þetta nálgist 4 milljarða, ef ég man rétt, því að ekki er langt síðan launasumman í landinu, tryggingagjaldsstofninn, var rétt um 1 þús. milljarðar þannig að hvert prósent væri þá 10 milljarðar og hvert 0,1% nálægt 1 milljarði, liðlega það væntanlega núna þannig að hér erum við að tala um talsverðar fjárhæðir. Það er ekki aðalatriðið heldur hitt að þetta rennur til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða með þeim hætti að þeir sjóðir sem hafa langþyngstu örorkubyrðina fá mest. Fyrst og fremst gengur þetta til þeirra sjóða sem eru með mjög háa örorkubyrði, þar sem örorkubæturnar eru hátt hlutfall af útgreiðslum sjóðanna.

Ef ekki kæmi til jöfnun til þessara sjóða er alveg ljóst að réttindi sjóðfélaga í þeim yrðu að öðru óbreyttu verulega lakari en annars staðar. Hvaða sjóðir eru þetta? Jú, frú forseti, þetta eru erfiðisvinnumannasjóðirnir. Þetta eru lífeyrissjóðir sjómanna, bænda, iðnaðarmanna og fleiri stétta sem vinna áhættusöm störf þar sem slysatíðni er því miður há og nýgengi örorku hátt, eðli málsins samkvæmt. Dæmi um slíkan sjóð er lífeyrissjóðurinn Stapi á Norður- og Austurlandi og kemur ekki á óvart miðað við starfssvæði þess sjóðs. Þar er örorkubyrðin býsna þung og það hefði leitt til umtalsverðrar skerðingar á réttindum allra sjóðfélaga í lífeyrissjóðnum Stapa ef ríkið hefði horfið út úr þessari jöfnun á þeim tíma sem lagt var upp með. Ég held að við höfum fengið útreikninga um það, gott ef það var ekki hátt í 10% skerðing sem hefði leitt af því.

Það getur auðvitað ekki talist eðlilegt. Þvert á móti tel ég að einmitt jöfnun á mismunandi örorkubyrði sé mjög góð aðgerð inn í lífeyrissjóðasamfélagið í heild vegna þess að það jafnar að þessu leyti stöðuna og það gengur að stærstum hluta til almennra lífeyrissjóða. Ef svo væri ekki yrði aðstöðumunur þeirra borið saman við aðra almenna lífeyrissjóði og opinbera hluta lífeyriskerfisins enn þá meiri. Við getum varla ætlað að halda í þá átt. Þvert á móti hefur staðið yfir viðamikil vinna undanfarin ár um að reyna að ná utan um lífeyrisréttindaávinnsluna í landinu í heild og sameina það í einsleitt ávinnslukerfi. Það þýðir ekki endilega einn lífeyrissjóð en það þýðir á mannamáli að menn ætla að reyna að hífa réttindin upp í almennu sjóðunum þannig að þau nálgist það sem er í opinberu sjóðunum. Það hafa verið lögð ýmis plön um hvernig það mætti gerast, jafnvel með einhverri þátttöku ríkisins á tímabili, t.d. með því að tengja við kjarasamninga á nokkurra ára tímabili stighækkandi iðgjöld til almennra lífeyrissjóða þannig að þau nálguðust það sem er í opinberu sjóðunum. Það þarf ekkert að deila um það hversu góð aðgerð það væri á vinnumarkaðnum að gera lífeyrissjóðakerfið einsleitara sem og lífeyrisréttindaávinnsluna þannig að hún sem slík væri ekki tilefni til deilna þegar kemur síðan að samningum um kaup og kjör, heldur byggju allir landsmenn við sem líkasta stöðu í þeim efnum.

Þetta finnst mér rétt að menn hafi í huga þegar þeir ræða þetta mál. Nú hefur sem sagt verið ákveðið að falla frá þessari skerðingu. Reyndar náðist sá árangur hér, þökk sé væntanlega talsverðu andófi sem uppi var í haust og fram að jólum, gagnrýni af hálfu verkalýðshreyfingarinnar sérstaklega og aðila vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðunnar, að ríkisstjórnin hvarf frá áformum um að lögfesta skerðinguna í heild þannig að framlögin hyrfu á fjórum árum og lét nægja að leiða í lög fyrsta fjórðung skerðingarinnar og það meira að segja þannig að það átti ekki að taka gildi fyrr en 1. júlí næstkomandi, en að vísu gilda svo til frambúðar lægra hlutfall, 0,260 í staðinn fyrir 0,325. Með þessari breytingartillögu gengur það til baka og verður óbreytt. Það er fagnaðarefni.

Ég get svo sem alveg tekið undir að eðlilegt er að menn vilji ræða þetta í framhaldinu. Á síðan að vera með þessa jöfnun inn í framtíðina á sama grunni eða sjá menn fyrir sér að því verði einhvern veginn öðruvísi fyrir komið? Mín ráð væru þau að hreyfa ekki við þessu á meðan viðræður eru þó að minnsta kosti enn í gangi og einhver vinna að ná utan um lífeyrissjóðamálin í heild til framtíðar litið. Það snýr auðvitað að mörgum þáttum með þessari jöfnun, ávinnslu og að jafna stöðuna helst upp á við eins og ég nefndi, auðvitað líka að því hvernig ríkið ætlar að efna skuldbindingar sínar gagnvart opinberum sjóðunum og sérstaklega B-deildinni þannig að þetta er risavaxið mál. Það er eitt af stærri málum Íslands til framtíðar litið hvernig tekst til í þessum efnum. Undanfarin ár hefur sem sagt lokinu verið haldið á þessu og viðræður verið í gangi um framtíðarlandslagið að þessu leyti. Þeim hefur miðað hægt, í raun auðvitað allt of hægt. Ég hef ekki af þessu nákvæmar fréttir síðustu tvö árin en vakti yfir þessu fram að því og hefði gjarnan viljað sjá þetta komast lengra áfram. Málið er auðvitað mjög stórt, auk þess sem þá voru erfiðar aðstæður til að ráðast í stórar aðgerðir á þessu sviði.

Að lokum, frú forseti, ætlaði ég að gera að umtalsefni breytingartillögu á þskj. 863 frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni. Hann hefur lagt fram tillögu, sem ég heyrði að vísu út undan mér að kynni að verða kölluð til baka en ég ætla engu að síður að láta sjónarmið mín gagnvart henni koma fram, um að inn í lögin um tekjuskatt sem standa hér opin komi sú breyting að 1. mgr. 98. gr. laganna orðist svo:

„Þegar ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu á skattaðila skal hann senda hverjum skattaðila tilkynningu þar sem tilgreindir eru þeir skattar sem á hann hafa verið lagðir. Jafnframt skal skattstjóri auglýsa rækilega, m.a. í Lögbirtingablaðinu, að álagningu sé lokið. Hafi skattaðili annað reikningsár en almanaksárið skal ríkisskattstjóri í stað auglýsingar samkvæmt 2. málslið senda honum tilkynningu um álagninguna með ábyrgðarbréfi. Þá skal ríkisskattstjóri senda viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skrá um þá aðila sem á hafa verið lagðir skattar, svo og samrit til ríkisendurskoðanda.“

Þetta gæti að sjálfsögðu gengið upp í framkvæmdinni, ekkert efast ég um það. Hv. þingmaður hefur að því leyti til unnið þetta vel tæknilega, en það sem mundi gerast með þessu er að opinber birting og framlagning álagningar og skattskrár landsmanna yrði lögð af í þeirri mynd sem hún er nú. Því er ég ósköp einfaldlega algerlega andvígur og hef lengi verið. Ég tel að einmitt stór hluti af aðhaldinu í þessum efnum sé hin opinbera birting álagningar- og skattskrárinnar þannig að menn sjái svart á hvítu hvernig tekjudreifingin var í landinu og að eðlileg umræða fari fram um það. Hvaða leyndarmál eiga það að vera? Nóg er nú í sjálfu sér launaleyndin samt og ýmis kjör sem ekki liggja endilega alltaf á lausu upplýsingar um á vinnustöðum eða annars staðar þó að ekki bætist við að það verði líka vafinn leyndarhjúpur utan um álagninguna og skattgreiðslur manna.

Ég gæti með engu móti stutt þessa tillögu og hvetti þingmenn alveg eindregið til að fella hana ef hún ætti eftir að koma til atkvæða. Auðvitað hefur oft áður verið tekist á um þetta. Ákveðinn hópur hefur stundum talað gegn þessum birtingum. Ég veit ekki hvort við fáum að heyra þau sjónarmið eitthvað hér í umræðunni en sem betur fer hefur alltaf verið samstaða um það að lokum að hörfa ekki í þessum efnum heldur birta skattskrána og álagninguna nákvæmlega eins og gert hefur verið mjög lengi á Íslandi. Í því er fólgið verulegt upplýsingagildi fyrir almenning. Hann fær upplýsingar um það hvernig samfélagið er saman sett í launum, tekjum og skattgreiðslum. Það er aðhald í því að menn skammti sér ekki, eftir atvikum getum við sagt, of lág laun, þeir sem væru í aðstöðu til þess, og borgi það sem kallað var einu sinni í gamla daga vinnukonuútsvar, að umsvifamiklir menn í atvinnurekstri eða menn sem hafa mikið umleikis í einkaneyslu og allir horfa upp á að eru vel haldnir skammist sín ef þeir vita að það yrði birt menn ef þeir telja fram smánarlega lág laun. Við vitum að ýmsir eru í aðstöðu til að hafa áhrif á hvernig launin eru talin fram. Þeir hafa þá alltaf aðhaldið af því að það birtist. Það þótti ekkert sérstaklega fínt, a.m.k. ekki í mínum plássum þar sem ég er uppalinn, ef tekjuhæstu menn samfélagsins hagræddu skattskilum sínum þannig að þeir borguðu vinnukonuútsvar.

Og svo öfugt, það er mjög mikilvægt að þjóðin sjái ef einhverjir toppar í samfélaginu taka sér ofurlaun. Af hverju ætti að vera leynd um það ef menn í fjármálakerfinu eða einhverjum stórfyrirtækjum moka í sig kaupaukum, bónusum og hvað það nú er? Á þá líka að þegja um það? Á ekki að veita aðhald með því að birta það opinberlega þegar það kemur til skattlagningar? Jú, ég held það. Ég mæli eindregið með því að þessi tillaga verði felld komi hún til atkvæða.

Þetta er það sem ég vildi segja um þetta mál, virðulegi forseti. Út af fyrir sig er okkur ekkert að vanbúnaði að ganga til afgreiðslu þessa máls þó að við hv. þm. Árni Páll Árnason höfum þau sjónarmið sem leiddu til þess að við skiluðum sérnefndaráliti. Við munum þá að líkindum ekki styðja það efni frumvarpsins sem beint snýr að því að fella alfarið niður skjölunarskylduna og það er þá fyrst og fremst 1. töluliður breytingartillögunnar á þskj. 1040 sem við erum ekki sammála og að minnsta kosti ég mun ekki greiða atkvæði með honum.