144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ættarsagan er þannig að hér er á ferðinni innleiðing á evrópskum reglum, milliverðlagningarreglum sem okkur ber skylda til að taka upp í EES-réttinn. Flestir eru sammála um að það sé framfaraskref að innleiða hér skýrar milliverðlagningarreglur eða skýrari en áður voru.

Þá kemur að spurningunni um hvernig eigi að innleiða og hversu víðtækt þetta regluverk eigi að vera. Þetta var innleitt þannig að þetta tók til viðskiptatengdra aðila, bæði innan lands og yfir landamæri, yfir vissum veltumörkum. Það var alltaf meiningin að undanskilja minnstu aðilana, enda hafa menn kannski ekki stórar áhyggjur af því að það bjagi markaðinn mikið eða þýði undanskot frá sköttum eða aðra óáran þó að minni aðilar með mjög litla veltu séu ekki undir þetta settir, enda meira íþyngjandi fyrir þá.

Síðan var það sjónarmið uppi að gera þetta þjálla með því að draga kannski aðeins úr því hvað skyldu teljast tengdir aðilar í þessari merkingu. Nú er fjallað um svona tengsl víða annars staðar í samkeppnislöggjöfinni, í lögum um stjórn fiskveiða og víðar; ekki kannski alls staðar notast við sömu skilgreiningar um hvað skuli teljast tengsl. Það hefði væntanlega þýtt að skjölunarskyldunni hefði létt af ýmsum aðilum, þessi þrengri skilgreining á því hvað skyldu teljast tengsl. En svo hafa menn ákveðið að bæta um betur og fella skjölunarskylduna einfaldlega niður gagnvart öllum viðskiptum sem ekki fara út fyrir landamæri.

Um það snúast að lokum efasemdir okkar eða mínar. Ég (Forseti hringir.) hef ekki sannfæringu fyrir því að ástæða sé til að ganga svo langt að skjölunarskyldan megi að minnsta kosti ekki haldast á nokkrum stærstu fyrirtækjasamstæðunum í landinu.