144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það var með töluverðum eftirgangsmunum að loks tókst að kalla saman formannafund sem okkur þingflokksformönnum hafði verið lofað í gær. Ég hélt í barnaskap mínum að það væri vegna þess að stjórnarflokkarnir væru að undirbúa eitthvert útspil, að það snerist um að þeir ætluðu að koma með eitthvað til fundarins. En það var ekkert, virðulegi forseti, sem stjórnarflokkarnir komu með til fundarins annað en sama stífni og verið hefur undanfarna daga og undanfarnar vikur raunar.

Maður hefði haldið að það væri skynsamlegt, þó ekki væri nema pólitískt, og að stjórnarflokkarnir hefðu vit á því, að nýta sér þá uppsveiflu sem er í samfélaginu, í tengslum við losun hafta og áætlun þar um, til að ljúka þinginu í sátt. En ekki virðist vera nokkur vilji til þess. Ég sé ekki betur, virðulegi forseti, en það þurfi að fresta þessum fundi til að reyna að ná einhverju samtali aftur og að formenn flokkanna setjist við borðið til að reyna að stilla saman strengi, því að þetta gengur ekki. Það er ekkert vit í því að halda þingfundi áfram meðan ástandið er eins og það er.