144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Staðan er sú að við gerum ráð fyrir því að geta hafið umræðu um haftamálin svokölluðu klukkan eitt á morgun. Nú er klukkan korter gengin í níu að kvöldi og ekkert hefur gerst í því að ná samkomulagi um þinglok sem hangir jú saman við umfjöllun um þessi mikilvægu mál að því leytinu til að það er mikilvægt að ekki sé beinlínis ófriður og erfitt ástand í þinginu á meðan sú umræða fer fram. Það er mikilvægt vegna gríðarlega stórra hagsmuna, ekki bara hér í þingsal, heldur ekki síður hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar hún fær síðan málið til umfjöllunar.

Það er ábyrgðarhluti af stjórnarmeirihlutanum að stilla málaumbúnaðinn ekki þannig af að við sjáum fyrir endann á þingstörfunum í vor, heldur fara fram með svona miklum ófriði. Ég skora á virðulegan forseta að ljúka þingfundi og einhenda sér í það eitt að ná sátt hér inni á milli stjórnar og stjórnarandstöðu áður (Forseti hringir.) en þingfundur hefst klukkan eitt á morgun. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir fyrir Ísland að það megi takast.