144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég sat umræddan þingflokksformannafund sem vitnað er í hér. Minn skilningur á honum var með tvennum hætti: Í fyrsta lagi sá að forseti tjáði þingflokksformönnum að hann hygðist boða til fundar með formönnum í dag til að reyna að ná sáttum um þinglok. Í öðru lagi voru þingflokksformenn sammála um að þingflokksfundur byrjaði klukkan tíu og stæði til tólf og umræðan um frumvörpin tvö, sem kynnt voru í gær, hæfist síðan klukkan eitt og hefði samfellu fram eftir degi.

Ég heyrði ekki þau orð, virðulegur forseti, og tel þess vegna að enginn hafi gengið á bak orða sinna, að samkomulag á milli formanna þyrfti að liggja fyrir. Fundur var fyrirhugaður og við vitum að við þurfum örugglega nokkra fundi enn til að ná niðurstöðu hvað varðar þá forgangsröðun sem við viljum hafa. En að (Forseti hringir.) einhver hafi svikið eða brugðist trausti eða gengið á bak orða sinna, það er rangt, virðulegur forseti.