144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ítreka þá skoðun mína og tillögu að við slítum þessum þingfundi. Ég tel ekki nokkra ástæðu til að halda áfram að funda í ljósi þess að mál eru í algjöru uppnámi. Eins og ég sagði áðan, frú forseti, þá er það stórfurðulegt að meira en vika hafi liðið og ekkert hafi hreyfst í því að þoka málum áfram, þegar tíu dagar eru liðnir frá því starfsáætlun þingsins lauk. Hér er búið að taka allt úr sambandi, nefndatöflu og annað, af því að nú átti að fara að pakka málum saman og reyna að ná saman um að ljúka málum. En það hefur ekkert komið frá meiri hlutanum hér á þingi um forgangsröðun, engar áherslur liggja fyrir.

Það er rétt, sem hv. þingmenn hafa sagt, að okkur er jafnvel sagt að mál séu í ágreiningi milli stjórnarflokkanna. Á meðan heldur Alþingi áfram eins og einhvers konar leikhús, heldur bara áfram að sýna án þess að vita hvar það ætlar að enda eða gera (Forseti hringir.) hlé á sýningunni.

Frú forseti. Það er morgunljóst að það á að slíta fundi og gefa fólki tækifæri til að (Forseti hringir.) ná saman. Hæstv. forseti þarf að setja pressu á formenn stjórnarflokkanna um að ljúka málum hér.