144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég held að hver maður sjái að þetta gengur ekki svona. Það verður að gera hlé á þessum fundi eða fresta honum til morguns.

Ég er búin að vinna í þessum málalista og skoða þessi 74 mál. Ég leyfi mér, frú forseti, að fullyrða að fyrir utan tvö stór átakamál, sem eru makríll og rammi, þá séu fleiri mál í ágreiningi á milli stjórnarflokkanna en á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ef raunin er sú að þessum átakamálum á milli stjórnarflokkanna hafi ekki verið búið að lenda, og það hafi orðið ljóst á þessum fundi formanna áðan, þá er ljóst að fólk þarf tíma til að tala sín á milli og lenda málum. Hvernig í ósköpunum eigum við að miðla málum sem gjarnan viljum koma á friði hér ef stjórnarflokkarnir eru ekki einu sinni búnir að lenda sínum málum?

Þetta gengur ekki, frú forseti. Það verður að slíta þessum fundi.