144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég man ekki hvenær það gerðist síðast að tíu dagar væru látnir líða án þess að starfsáætlun væri í gildi, að menn hafi ekki náð saman um umgjörð utan um það hvernig þinghald ætti að fara fram eftir að sá tími væri liðinn. Ég hélt í barnslegri einfeldni minni að við værum að bíða eftir þessum haftafrumvörpum og þess vegna væri þingið látið malla. Nú eru þau komin en menn ætla samt ekki að setjast niður og ákveða hvaða mál eigi að setja á oddinn og hvaða mál eigi að klára og búa til einhvers konar forgangslista.

Hvað gengur eiginlega á? Ætlast menn til þess að við setjumst bara hér niður á morgun og förum að ræða haftamálin, bara sisvona í bróðerni, og menn fari að vinna það mál af einhverri alvöru? Það gengur ekki að vinna svona, virðulegi forseti. Menn þurfa að setjast niður og skoða þetta í heild sinni. Menn sem geta ekki skoðað heildarmyndina og haft einhverja heildarsýn eiga ekki að stjórna heilu landi. Það er bara þannig. Við erum með slíka menn við stjórnvölinn, menn sem ráða ekki við það verkefni að horfa yfir sviðið og forgangsraða og taka ákvarðanir út frá (Forseti hringir.) heildarmyndinni. Það er sú sorglega staðreynd sem við búum við hér.