144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er ömurlegt. Það eru orð að sönnu. Þetta er eitthvað sem maður getur hvorki útskýrt fyrir sjálfum sér né öðrum því að hegðun ríkisstjórnarformannanna tveggja er óskiljanleg. Ég held að það sé kominn tími á að þeir fái til sín sáttasemjara. Ég held að það sé augljóst að engu miðar áfram hér fyrr en þeir tveir komast að samkomulagi.

Ég segi eins og sagt var hér áðan, ég hélt að verið væri að bíða eftir þessum stóru málum. Það var látið í það skína að þegar þau væru komin fram þá yrði annað kannski tiltækt til einhvers konar samkomulags um að ljúka þingi. Ég kalla eftir því að Einar Kristinn Guðfinnsson komi hingað og taki ákvörðun um að slíta fundi í kvöld ef hann vill fá einhverja umræðu af viti á morgun um afnám hafta. Það er alveg ljóst að það getur ekki verið að menn vilji fá það mál til í umfjöllun hér á morgun í þessu andrúmslofti, það bara getur ekki verið.

Virðulegi forseti. Hér er talað um að starfsáætlun sé liðin. Menn segja svo: Við getum unnið hér eins lengi og við viljum. Þetta er eins og að skólastjóri mundi segja við kennara: (Forseti hringir.) Skóladagatalið er búið, en við ætlum samt að halda áfram.