144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Gera menn sér ekki grein fyrir því að þegar stjórnarandstaðan er farin að tala með þessum hætti þá á hún sér ákveðin markmið? Ég tók þátt í því að ræða lengi og mikið um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Stjórnarráðið. Hvers vegna? Vegna þess að ég vildi fá því framgengt, og við vorum mörg um það, að málið færi að nýju til efnislegrar meðferðar í nefnd og við náðum því fram. Það er gott. Nú bíðum við eftir fundi um það.

Ég get nefnt önnur mál sem standa í okkur stjórnarandstöðuþingmönnum, mál sem við viljum setjast yfir og reyna að ná samkomulagi um. Skilja menn ekki um hvað þessar deilur snúast? Skilja menn ekki hvers vegna við erum á stundum að reyna að tefja þinghaldið? Ég bara segi það hreint út, að sjálfsögðu. Það eru ákveðin markmið sem við höfum í huga. Ef menn taka okkur á (Forseti hringir.) orðinu og setjast niður og reyna að ná samkomulagi um þau mál sem deilt er um þá verður samkomulag. (Forseti hringir.) Þá ljúkum við þinghaldinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)