144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er ekki hægt annað en að taka undir það að því miður virðist ríkisstjórnarforustan vera óskaplega mikið, sérstaklega því miður formaður Framsóknarflokksins og sumir af þingmönnum og ráðherrum hans, í hálfgerðri stjórnarandstöðu enn þá. Málflutningurinn ber þess mjög oft merki, sérstaklega þegar verið er að reyna að fá svör, að þrátt fyrir að völdin séu þeirra virðast þeir einhvern veginn ekki nýta þau nema að litlu leyti til framkvæmda. Það er kannski gott að mörgu leyti, kannski gerist þá minna af því sem maður er ósáttur við. Fyrst og fremst snýr þetta að því að samskiptin hafa ekki verið nægilega góð á milli aðila vinnumarkaðarins, sveitarstjórnarfólks og annarra hjá þessari ríkisstjórn. Það hefur berlega komið fram og hefur sýnt sig í mjög mörgum umsögnum um ansi mörg mál. Við erum bara með slík mál í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem mikið er kvartað undan samráði og því að verið sé að ganga á rétt sveitarfélaga með einum eða öðrum hætti.

Varðandi atvinnuleysistryggingar, tryggingagjald o.fl. varðaði hluti af því sem kom fram þegar við fjölluðum um fjárlögin þessa styttingu á atvinnuleysisbótatímanum þar sem kostnaður færðist frá ríki til sveitarfélaga. Svo þurfti að auka framlög í endurhæfingarlífeyrinn vegna þess að það lá beinast við að ríkið þyrfti að auka við á einum stað vegna þess að það var verið að skera niður á öðrum sem varðaði atvinnuleysistryggingar.