144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég get vel skilið þann metnað í forsetastól að vilja ljúka málum sem tiltöluleg sátt er um eins og í því máli sem við erum hér með í miðjum klíðum. Tillit verður þó að taka til þess að mikill meiri hluti þingmanna sem hér eru í kvöld hefur fært fyrir því góð rök að það sé óheppilegt að halda fundi áfram hér í kvöld, sama hvert málið er sem er til umræðu. Aðstæður eru hreinlega þannig, hafa verið þannig hér í dag og undanfarna daga. Það mál sem hér á að ræða á morgun kallar enn fremur á að við gerum hlé á störfum þingsins að því leyti að þessum fundi verði slitið, menn fái frið til að undirbúa sig fyrir morgundaginn og þeir sem eðlis síns vegna eða annarrar sköpunar treysta sér ekki til að ná samningum um málin séu beðnir að nýta tímann til þess að skoða í hug sér um það með hvaða hætti þeir samningar gætu tekist. Ég fer fram á það, forseti, að hann hugsi þetta betur, (Forseti hringir.) geri að minnsta kosti hlé á fundinum og slíti honum helst til að skapa betra vinnuandrúmsloft á þinginu.