144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að menn fari núna að slíta þessum þingfundi, en ég vil þá aftur gera kröfu um að hér verði ekki byrjað á morgun að ræða haftamálin í því andrúmslofti sem hér er þar sem öll mál eru upp í loft. Við gerum kröfu um að menn verði búnir að setjast niður með okkur af heilindum og farnir að ræða við okkur með hvaða hætti menn ætla að ljúka þinginu í heild sinni. Við getum ekki tekið jafn mikilvæg mál og losun fjármagnshafta þar sem skiptir máli að við náum samstöðu og náum vel saman um öll þessi mál. Einlæglega gengur ekki að bjóða okkur upp á það að fara svona inn í þá umræðu. Og ætla menn svo að ljúka þeirri umræðu og halda þessari vitleysu hér áfram? Það verða að fara að koma einhver svör, virðulegi forseti. Þetta er ekki hægt svona, þetta er fullkomlega óboðlegt (Forseti hringir.) öllum sem hér eru og öllum þeim sem við erum að vinna fyrir.