144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég eiginlega þori ekki annað en að koma upp og árétta hér orð flokkssystra minna, hv. þingmanna Katrínar Júlíusdóttur og Valgerðar Bjarnadóttur. Það eru tvö mál sem varða fjármagnshöftin, sem varða gífurlega hagsmuni þjóðarbúsins, og ég hélt að það hvarflaði ekki að nokkrum manni að við værum að fara að ræða þau þegar algjör óeining er um hvernig eigi að ljúka þessu þingi.

Mér finnst þetta svo furðulegt, það er eins og það sé treyst á að hér geti menn hagað sér eins og pörupiltar og götustrákar en svo sé hægt að treysta á ábyrgðartilfinningu minni hlutans. Að sjálfsögðu er hér um þjóðhagslega mikilvæg málefni að ræða. Þingmenn munu taka ábyrgð í samræmi við það, en þetta er langt gengið gagnvart okkur hér. Ég minni aftur á að samkvæmt þingsköpum verður hér leyfi frá og með 1. júlí.