144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla nú alls ekki að lengja þessa umræðu mikið, en það eru fáein atriði sem ég vil aðeins tæpa á, sérstaklega vegna þess að talsmenn meiri hlutans hafa ekki enn sem komið er brugðist við því sem fram kom í máli mínu og reyndar fleiri hv. þingmanna.

Ég þakka auðvitað fyrir að fá orðið, frú forseti. Það er nú í samræmi við óskoraða þingvenju að ef þingmanni sem situr í salnum er ekki ljóst að mælendaskrá hafi tæmst en hann hefur hugsað sér að tala og á til þess rétt, að gefi hann merki um slíkt í þann mund sem forseti er að tilkynna að mælendaskrá sé tæmd og að við því sé orðið, enda þingsköp í svona tilvikum alltaf túlkuð rétti þingmannsins í vil sem hann á til þess að taka þátt í umræðum og tjá skoðanir sínar.

En eins og ég segi ætla ég ekki að lengja mikið umræðu um þetta dagskrármál þó að ég viti auðvitað vel að hv. þingmenn, 4. þm. Reykv. og 3. þm. Norðaust., bíði mjög spenntir eftir því að hlýða á mál mitt, en það mun verða stutt engu að síður að þessu sinni.

Í fyrsta lagi hafði ég vonast eftir einhverjum viðbrögðum eða að við fengjum smárökræðu um það atriði sem ég vakti athygli á og snýr að því að fella út úr lögunum tilvísun í viðmiðunarreglur Efnahags- og framfarastofnunar OECD um milliverðlagningu. Ég hef ekki enn fengið botn í hvað þau sinnaskipti eiga að þýða frá því að það var talið frumvarpinu sem innleiddi tilskipunina á sínum tíma alveg sérstaklega til tekna að vísað væri í þessar milliverðlagningarreglur. Þær væru mikilvægt leiðarljós sem menn styddust við, auðvitað ekki lög heldur leiðbeiningar þessarar ágætu stofnunar sem margt ágætt kemur frá, þó að henni hafi nú líka stundum verið mislagðar hendur. Umsagnaraðilar um málið á sínum tíma nefndu þá að þeir teldu þetta einmitt mjög til bóta. Nú man ég ekki alveg hvort það voru Samtök verslunarinnar eða atvinnulífsins eða hverjir það voru sem tilgreindu það sérstaklega en svo mikið man ég að það var gert.

Ég hefði í öllu falli gjarnan viljað fá þetta botnað áður en við lokum umræðunni, ég reikna ekki með því að það leiði til breytinga enda er orðið framorðið fyrir þær. Ef umræðan klárast nú hér á eftir lokast möguleikar á breytingartillögum o.s.frv.

Í öðru lagi og þessu tengt langar mig að tala um skjölunarskylduna. Það kann vel að vera að ég og hv. þm. Árni Páll Árnason séum einfaldlega í minni hluta með það sjónarmið að ekki sé ástæða til að ganga svo langt að fella skjölunarskylduna niður með öllu gagnvart öllum innlendum fyrirtækjum, jafnvel þó að bara ættu nú í hlut allra stærstu samstæðurnar sem eru fyrirferðarmestar í íslensku viðskiptalífi, sem eru yfirleitt þar með í markaðsráðandi stöðu, því að það er nú einu sinni veruleiki okkar litla tebolla íslensks viðskiptalífs að á mörgum sviðum eru tvær, þrjár samstæður algerlega markaðsráðandi. Það á til dæmis við um smásöluverslunina, þar eru samstæður á ferð. Þar eru tengdar verslanir og þar eru smásölufyrirtæki sem eiga aftur í birgjum eða innflutningsfyrirtækjum eða þjónustufyrirtækjum sem þeir eiga margvísleg viðskipti við.

Ég hefði haldið að menn mundu að minnsta kosti vilja gaumgæfa hvort ekki væri ágætt að vera með skjölunarskyldu á innbyrðis viðskiptum slíkra aðila, þó að það gerði ekki neitt annað en að draga úr tortryggni sem er á hina sterku stöðu slíkra aðila. Menn bara ímynda sér kannski að hætta sé á því að menn freistist stundum til þess að vera ekki með algerlega eðlilega verðlagningu í slíkum viðskiptum og það er auðvitað samkeppniselement í því, því að ef slík markaðsráðandi samstaða getur hagrætt fyrir sér að einhverju leyti með verðlagningu sem víkur frá armlengdarsjónarmiðum viðskipta óháðra aðila getur það haft áhrif á stöðu hennar gagnvart keppinautum. Það er einfaldlega þannig, jafnvel þó að menn trúi því að í skattalegum skilningi sé þetta ekki áhyggjuefni til lengri tíma litið fyrir íslensk skattskil. Það getur augljóslega haft tímabundin áhrif, þannig að ég hygg að jafnvel samkeppnisþátturinn og trúverðugleikaþátturinn sé þarna stærri.

Sé það ekki vilji meiri hlutans til að hvika frá þessu — og ég hlýt, frú forseti, að vekja athygli á því að hér hafa menn kúvent í afstöðu sinni. Við afgreiddum málið og greiddum um það atkvæði við 2. umr. með þessa skjölunarskyldu inni. Þá var þingheimur sammála um það. Svo verður sú vending allt í einu milli 2. og 3. umr. að veður skipast í lofti, og hvers vegna? Vegna þrýstings, það er auðvitað ekkert annað en þrýstingur frá aðilum í atvinnulífinu sem vildu bara losna við þetta vesen. Gott og vel, við hefðum þá kannski átt að setjast yfir það og vorum tilbúin til að setjast yfir það að hækka fjárhæðarmörkin þannig að þetta íþyngdi engum nema þá allra stærstu aðilunum, en því miður varð það ekki niðurstaðan.

Ég spyr þá líka: Ef málinu verður lokað svona og gert að lögum með þessum hætti, er vilji til þess af hálfu meiri hlutans að eftir sem áður skoði efnahags- og viðskiptanefnd þetta mál? Það getum við auðvitað gert á fundum okkar í haust og fram eftir vetri og velt því fyrir okkur: Var þetta endilega alveg rétt niðurstaða?

Það þriðja og síðasta sem ég hafði vonast til þess að fá skýrt hér við umræðuna, frú forseti, varðar breytingartillögu hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar. Ég hefði haft áhuga á því að vita um örlög hennar. Ég veit ekki hvort því verður við komið vegna þess að viðkomandi þingmaður er ekki lengur í salnum, í bili að minnsta kosti. Mun breytingartillagan koma hér til atkvæða á morgun? Mér finnst að þingmenn þurfi að vita það, vegna þess að þar er lögð til grundvallarbreyting á efnisatriði algerlega óskyldu því sem við erum hér að tala um, sem sagt á birtingu skattskrár og álagningar. Það hefur ekkert með milliverðlagningarreglur að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Auðvitað er hv. þingmanni frjálst að flytja breytingartillögur um hvað sem er í lögum sem uppi eru í frumvarpi, en það er auðvitað nauðsynlegt að hafa það í huga að þessi grundvallarbreyting er lögð hér fram sem breytingartillaga við 3. umr. og hefur engin umræða farið fram um hana svo að ég hafi heyrt. Ætlar þingið bara að yppa öxlum yfir því og eru allir tilbúnir þá að ganga til atkvæða um það á morgun eða hvenær sem það nú yrði?

Ég hefði viljað fá það á hreint: Kemur þetta til atkvæða? Ef það kemur til atkvæða, frú forseti, ætla ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að fá það fellt og skora á þingmenn að gera það, alla þá sem staðið hafa saman um það í gegnum árin að verja birtingu skattskrárinnar og álagningar, að þeir bili ekki núna í þessari umferð. Það er margbúið að reyna þetta og til þess að tala ekki neina tæpitungu eru það ungir íhaldsmenn, Heimdellingar, sem hafa lagt þetta til. Ætli þeir samþykki ekki um þetta ályktun á hverju einasta þingi sínu, að það sé alveg skelfilegt að það skuli vera birt hvað sumir hafa há laun og þurfi að borga mikla skatta eða litla skatta. En það hefur sem betur fer alltaf verið breið pólitísk samstaða að þessu slepptu, kannski einhverjir sjálfstæðisþingmenn, þó alls ekki allir, held ég. Ég held að það hafi alls ekki allir verið þeirrar skoðunar í þeirra flokki að hverfa ætti frá þessari birtingu.

Það er nú stundum svona, frú forseti, að menn freistast kannski til þess að fá far með eitthvað svona lagað þegar verið er að glíma við að breyta allt öðrum ákvæðum viðkomandi laga eins og hér á við. Stundum köllum við þetta laumufarþega þegar svona tillögur birtast allt í einu og það væri auðvitað skrýtin uppákoma ef þessi grundvallarbreyting yrði gerð hér við 3. umr. eiginlega án nokkurrar umræðu. Ef það verður svo, sem ég heyrði ávæning af að hv. þingmaður velti því fyrir sér að kalla tillöguna til baka, er þessi umræða óþörf og hún kemur ekki til atkvæða, en skyldi hún koma til atkvæða tel ég að það sé mikilvægt að þingmenn átti sig á því að hún er á dagskrá, að hún liggur fyrir.