144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að okkur muni takast að eiga málefnalega umræðu um þá tillögu sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson leggur hér fram. Sjálf sé ég rök með og á móti henni. Það sem er helst á móti henni er launamunur kynjanna. En í því felst ákveðið gagnsæi og það er þá auðveldara fyrir konur á hinum almenna vinnumarkaði að átta sig á því hvaða laun þær geta sótt. Þess vegna fylgir birtingu ákveðið aðhald. En aftur á móti finnst mér þetta vera það persónulegar upplýsingar að menn eigi ekki að geta legið yfir einhverjum slíkum listum. Það togast á í mér og eflaust gildir það um fleiri. Þess vegna væri betra ef við gætum átt samtal og umræðu sérstaklega um þessa breytingartillögu en vippuðum henni ekki bara með í þessu stóra máli.

Mig langar að spyrja að einu í viðbót. Í breytingartillögunni sem nefndin öll flytur sé ég ekki betur en að stjórnarmeirihlutinn fari til baka þegar hann kemur að hlutfallstölunni í 2. breytingartillögunni þar á síðunni varðandi það sem snýr að ráðstöfun tekna af almennu tryggingagjaldi sem fer til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Þarna ætluðu menn sér að fella það alveg niður í fjórum áföngum, ef ég man rétt, en ákveða núna að fara til baka og er það vel, enda gagnrýndum við í stjórnarandstöðunni það harðlega og einnig verkalýðshreyfingin. Það voru reyndar fleiri atriði sem verkalýðshreyfingin taldi að menn brytu þarna samkomulag um. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta sé merki þess að menn séu að snúa af þeirri braut að láta stjórnarsamstarfið eingöngu snúast um að vinda ofan af aðgerðum fyrri ríkisstjórnar (Forseti hringir.) með þeim afleiðingum að menn þurfi svo að koma með skottið á milli lappanna eins og hér er að eiga sér stað. Telur hv. þingmaður að það gildi um fleiri mál að (Forseti hringir.) menn muni koma hér inn með mál og draga niðurskurðinn til baka, eins og til dæmis hvað varðar virkniúrræði á vinnumarkaði?