144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:47]
Horfa

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma í andsvar vegna ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann gerði skjölunarskyldu að umtalsefni. Þegar ég las frumvarpið fyrst yfir var ég eiginlega alveg sama sinnis og hv. þingmaður og velti því fyrir mér hvers vegna verið væri að taka skjölunarskylduna út. Eftir að vera búin að skoða það heyri ég nú svo sem að við erum nokkuð sammála um að það skiptir kannski ekki öllu máli tekjuskattslega séð að við fellum niður skjölunarskyldu innlendra aðila, en ég tek alveg undir þær vangaveltur sem hv. þingmaður var með hér sem tengjast samkeppnissjónarmiðum og hvort ekki sé hreinlega flötur á því að skjölunarskylda verði hjá fyrirtækjum sem eru yfir ákveðnum veltufjárhæðum eða tekjuviðmiðum, eða hvaða viðmið sem við notum, að tekið sé á því í samkeppnislögum, þar sem hérna er til umfjöllunar frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt og öðrum sköttum en ekki til dæmis á samkeppnislögum. En ég vildi bara koma hérna upp og taka undir þau sjónarmið að skjölunarskylda eigi ekki að þurfa að vera milli innlendra aðila hvað varðar tekjuskatt en á öðrum sviðum ættum við að skoða það.